Skuldir spænska ríkisins munu líklega ná rúmlega 85% af vergri landsframleiðslu í ár og fara yfir 90% á næsta ári, að því er fjármálaráðherra landsins, Cristobal Montoro, segir. Í frétt BBC segir að flestir sérfræðingar séu sammála um að spurningin sé ekki lengur hvort heldur hvenær Spánn þarf á fjárhagsaðstoð að halda.

Vandi spænska ríkisins er ekki síst sá að það hefur barist við að halda spænska bankakerfinu á floti allt frá hruninu 2008. Spænskir bankar höfðu lánað mjög mikið til fasteignakaupa og reyndust það óheppilegar fjárfestingar.

Fleiri atriði skipta þó máli, ekki síst gríðarlegt atvinnuleysi og dvínandi skatttekjur. Spánn hefur hingað til viljað forðast það í lengstu lög að verða fjórða ríkið á eftir Grikklandi, Portúgal og Írlandi sem biður ESB um fjárhagsaðstoð, en ekki er víst að það takist mikið lengur.