*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 6. nóvember 2019 08:57

Enn lækka stýrivextir

Peningastefnunefnd hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 0,25% og verða þeir því 3%.

Ritstjórn
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Aðsend mynd

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3%. Seðlabanki Íslands greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í nóvemberhefti Peningamála hafi horfur um hagvöxt á seinni hluta ársins versnað frá því sem spáð var í ágúst. Hagvöxtur á fyrri hluta ársins hafi hins vegar verið meiri en spáð var og sé því gert ráð fyrir 0,2% samdrætti á árinu öllu eins og í ágúst. Horfur fyrir næsta ár hafi einnig versnað og er nú spáð 1,6% hagvexti.

Margir greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir að Peningastefnunefnd myndi ákveða að halda stýrivöxtum óbreyttum. Því má gera ráð fyrir að ákvörðun nefndarinnar komi einhverjum á óvart.

„Verðbólga hefur verið um eða yfir 3% frá því í vor en í október mældist hún 2,8%. Undirliggjandi verðbólga hefur hins vegar verið þrálátari. Horfur eru á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í ágúst og að hún verði komin í markmið undir lok þessa árs. Verðbólguvæntingar hafa haldið áfram að lækka og eru við markmið miðað við flesta mælikvarða. Taumhald peningastefnunnar hefur því aukist lítillega milli funda.

Vextir bankans hafa verið lækkaðir um 1,5 prósentur frá því í vor og eiga áhrif þess enn eftir að koma fram að fullu. Lækkun vaxta hefur stutt við eftirspurn og miðað við spá bankans ætti núverandi vaxtastig að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta. Þá mun boðuð slökun í aðhaldi ríkisfjármála leggjast á sömu sveif. Efnahagshorfur gætu hins vegar verið of bjartsýnar, einkum vegna óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar,“ segir jafnframt í tilkynningunni.