Verð lækkaði á evrópskum hlutabréfamarkaði við opnun í dag. Lækkunin kemur meðal annars í kjölfar yfirlýsingar fyrrverandi grísks forsætisráðherra um að athugaðir verði möguleikar á kostum þess að Grikkir yfirgefi evruna.

Papademos, sem nýverið lét af störfum sem forsætisráðherra, sagði seint í gær að það væru aðeins takmarkaðir möguleikar fyrir hendi fyrir Grikki til að semja um skuldavandann. Þetta kemur fram á vef bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal.

FTSE vísitalan í Bretlandi hafði lækkað um 1,1% við opnun í morgun, þýska DAX vísitalan um 1,3% og franska CAC-40 vísitalan um 1,1%. Í frétt bandaríska dagblaðsins er haft eftir sérfræðingi að búast megi við áframhaldandi þrýstingi á evrópskum hlutabréfamarkaði nema mikið komi til á fundi Evrópusambandsins í dag.