Enn berast engar fregnir af því hvenær áformað sé að taka fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda fyrir á stjórnarfundi AGS.

Endurskoðunin hefur í tvígang verið sett á dagskrá sjóðsins, nú síðast 14. september, en stuttu síðar tekin af dagskrá aftur.

Þegar endurskoðuninni var frestað í byrjun ágúst sögðu íslenskir ráðamenn að þeir vonuðust til að hún yrði tekin fyrir í stjórninni í lok ágúst eða byrjun september. Nú eru þær vonir að renna út í sandinn.

Haft var eftir Ragnari Hjálmarssyni á vb.is á mánudag að yfirstjórn sjóðsins væri að fara yfir gögn og klára nauðsynlegan undirbúning áður en hægt yrði að taka málið fyrir í framkvæmdastjórn.

Önnur greiðsla AGS láns til Íslendinga og lán Norðurlandanna verða ekki greidd fyrr en að lokinni fyrstu endurskoðun AGS.