Þrotabú Þreks ehf. , félags sem áður hélt utan um rekstur líkamsræktarstöðvanna World Class, sæki nú hart að Birni Leifssyni, eiganda World Class, en um þessar mundir eru þrjú mál í gangi í dómskerfinu.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær var tekist á um eitt þeirra; kaup Þreks á 40% hlut í líkamsrækt World Class á Seltjarnarnesi af Laugum en því félagi stýrir Björn. Rekstri World Class líkamsræktarstöðvanna var hagað þannig að félagið Þrek ehf. hélt utan um reksturinn en félagið Laugar ehf. sá um fasteignir og búnað. Bæði félögin voru að mestu eða öllu leyti í eigu Björns Leifssonar og undir hans stjórn.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Þrotabúið segir að kaupin hafi falið í sér gjafagjörning en Björn að um eðlileg viðskipti hafi verið að ræða. Þrek var lýst gjaldþrota árið 2010 en var komið í veruleg vandræði snemma árs 2009.

Ástæðan fyrir erfiðleikunum hefði verið misheppnuð útrás til Danmerkur í samvinnu við fjárfestingarbankann Straum. Það var þó ekki það eina í rekstrinum sem fór úrskeiðis því bygging stöðvarinnar á Seltjarnarnesi fór langt fram úr áætlunum; úr um 400 milljónum í 715 milljónir, að sögn Björns.

Hann kvaðst ekki skilja málatilbúnað þrotabúsins, 40% hlutur í stöðinni hefði einfaldlega verið seldur á 300 milljónir. „Þetta er algjörlega hreint í bókhaldi, samkvæmt öllum gögnum,“ sagði Björn og í málflutningi lagði lögmaður hans, Sigurður G. Guðjónsson hrl., mikla áherslu á að engin gögn lægju fyrir um að viðskiptin hefðu verið óeðlileg, þvert á móti.

Ólafur Kjartansson hdl., lögmaður þrotabúsins, lýsti málinu á allt annan veg. Hann benti á að í málinu lægju fyrir þinglýst skjöl, m.a. frá apríl 2008, sem sýndu að Þrek var skráð fyrir lóðarleigu stöðvarinnar til jafns við Laugar og að það væru líkindi til þess að Þrek hefði verið eigandi stöðvarinnar með Laugum. Með því að láta Þrek greiða 300 milljónir fyrir 40% hlut hefði Þrek því í raun og veru verið gert að greiða fyrir sína eigin eign. Þetta hefði verið málamyndagjörningur í þeim tilgangi að lækka skuld Lauga við Þrek úr 394 milljónum í 94.