Iðnaðarframleiðsla jókst í Kína í október eftir þriggja mánaða samdrátt sem sýnir að enn er gangur í hagkerfinu þar. Líklegt er að þessi aukning slái á ótta fjárfesta við að verulega muni hægja á hagvextinum á heimsvísu. Þá hefur einnig dregið úr verðbólguþrýstingi í Kína.

Iðnaðarframleiðsla í Kína er viðkvæm fyrir samdrætti í eftirspurn í Evrópu og Bandaríkjunum sem eru stærstu útflutningsmarkaðirnir og útflutningsaukningin á Bandaríkjamarkað var helmingi minni í september en í ágúst. En vaxandi innanlandseftirspurn í Kína hefur vegið upp þarna á móti auk stöðugs vaxtar í útflutningi til nýmarkaðslanda þannig að enn virðist vera kraftur í kínverska hagkerfinu.