Aðeins er gert ráð fyrir því að selja eignir hins opinbera fyrir 600 milljónir króna á næsta ári, að því er fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er sama upphæð og gert er ráð fyrir að selja á þessu ári. Á meðal fasteigna og fastafjármuna í eigu ríkisins eru Vífilsstaðaspítali, sala eða leiga á Gufuskálum, mannvirki laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði á leigulóð, land ríkisins á Keldum, Keldnaholti og við Úlfarsá.

Morgunblaðið fjallar um fjárlögin í dag og segir að ekki séu uppi áform um eignasölu í tekjuöflunarskyni líkt og gert var ráð fyrir í síðasta frumvarpi. Blaðið segir áætlaða eignasölu í fjárlögum fyrir þetta ár sem sérstök fjögurra milljarða króna viðbót við aðra eignasölu hafi fljótlega verið talin óraunhæf og því felld brott úr tekjuáætluninni.

Bankasýslan mun gera tillögur til fjármálaráðherra um sölu hluta sem ríkið á í fjármálafyrirtækjum. Ekki er hins vegar talið tímabært að gera ráð fyrir tekjum af söluhagnaði á næsta ári af sölu þeirra hluta sem ríkið á í Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum.

Í nýju fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælir fyrir á Alþingi í dag fær ráðherra 59 heimildir til eignasölu. Þeim er skipt upp í sjö flokka, þar af eru 19 heimildir sem ekki voru í síðasta fjárlagafrumvarpi.