Sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson tilkynnti 1.200 manna hópuppsögn í dag en fyrirtækið hefur þurft að skera mikið niður undanfarin misseri vegna færri viðskiptavina.

Samkvæmt fréttamiðlinum Reuters hefur fyrirtækið þegar hafið samningaviðræður við viðeigandi stéttarfélög.

„Eins og fyrirtækið hefur áður sagt glímir Ericsson við krefjandi aðstæður á fjarskiptamarkaði árið 2024 með meiri samdrátt og varkárari viðskiptavini,“ segir fyrirtækið í yfirlýsingu.

Ericsson sagði í janúar á þessu ári að það þyrfti að skera niður í hagræðingarskyni og minntist þá á uppsagnir án þess að gefa upp hversu margir kæmu til með að missa vinnuna.