Hreinar skuldir þjóðarbúsins við útlönd hafa aukist hratt á árinu, úr rúmlega 680 ma. króna um síðustu áramót í liðlega 905 ma. í lok júní síðastliðins. Samkvæmt bráðabirgðatölum sem Seðlabankinn birti nýverið voru erlendar skuldir alls tæplega 2.460 ma. í júní, sem er aukning um rúm 35% frá áramótum, en erlendar eignir voru þá rúmir 1.550 ma og höfðu aukist um 37% frá upphafi árs. Hlutfall erlendra eigna af erlendum skuldum þjóðarbúsins hefur því heldur hækkað á fyrri hluta ársins og var í lok júní um 63% segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Í Morgunkorninu er bent á að drjúgur hluti aukningar hreinna skulda við útlönd er til kominn vegna sölu skuldabréfa innlánsstofnana til erlendra aðila. Þannig jukust skuldir innlánsstofnana við útlönd að frádregnum erlendum eignum úr tæpu 780 ma. króna um síðustu áramót í 1.045 ma um mitt þetta ár. Hið opinbera hefur hins vegar jafnt og þétt verið að bæta hreina skuldastöðu sína gagnvart útlöndum síðastliðin ár. Urðu hreinar skuldir ríkis og sveitarfélaga mest tæplega 240 ma. í árslok 2001, en voru í lok júní tæpir 190 ma. og höfðu þá lækkað um 8,6% frá áramótum.

Hreinar skuldir þjóðarbúsins sem hlutfall af landsframleiðslu eru nú tæplega 92% og hefur hlutfallið hækkað um 6 prósentustig frá áramótum, og rúm 42 prósentustig frá árslokum 1999. Hér er þó ekki öll sagan sögð, því erlendar eignir hafa aukist hratt og hefur hlutfall þeirra af erlendum skuldum hækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Það má því segja að efnahagsreikningur íslenska hagkerfisins gagnvart útlöndum hafi verið að vaxa mun hraðar en landsframleiðslan. Það bætir líka stöðuna að langstærstur hluti erlendra skulda eru langtímaskuldir og hefur hlutfall langtímaskulda á móti skammtímaskuldum farið vaxandi. Hærra hlutfall langtímaskulda minnkar líkur á óstöðugleika innlendra fjármálamarkaða vegna skyndilegra breytinga í erlendri stöðu þjóðarbúsins.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.