Slitastjórn Glitnis lét kanna sérstaklega hvort fyrrverandi lögreglumennirnir tveir hefðu stytt sér leið í störfum sínum fyrir slitastjórnina. Mennirnir voru nýlega kærðir fyrir brot á þagnarskyldu í opinberu starfi, en þeir reka fyrirtækið Pars Per Pars og höfðu um nokkurt skeið unnið fyrir þrotabú Milestone samhliða vinnu sinnu hjá embætti sérstaks saksóknara.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag og ræðir við Steinunni Guðbjartsdóttur, formann slitastjórnar Glitnis. Hún segir að ekkert benti til að P3 hafi nýtt sér upplýsingar frá embætti sérstaks saksóknara í störfum fyrir slitastjórnina. Mennirnir hófu störf fyrir Glitni eftir að þeir hættu hjá sérstökum saksóknara og eru enn að störfum fyrir slitastjórnina, að sögn Steinunnar.