Samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins (ESB) hafa lagt blessun sína á 75 milljarða dala kaup Microsoft á tölvuleikjafyrirtækinu Activision Blizzard.

Tregi samkeppnisyfirvalda í Bretlandi til að samþykkja viðskiptin lagði stein í götu þeirra en með blessun ESB komast kaupin aftur á fullt skrið.

Ein af lykilástæðum þess að ESB ákvað að aðhafast ekki frekar vegna samrunans er sú að Microsoft hefur lofað að Call of Duty, vinsælasti tölvuleikur úr smiðju tölvuleikjaframleiðandans, verði aðgengilegur í gegnum skýjastreymislausnir helstu samkeppnisaðila.

Fyrirtækin þurfa þó enn að bíða þess að fá grænt ljós frá öðrum stórum samkeppnisyfirvöldum á alþjóðavísu áður en kaupin ganga í gegn.