Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir að svigrúm sé í atvinnulífinu fyrir launahækkanir og að verkalýðshreyfingin hljóti að sækja um meira en þau þrjú prósent sem atvinnurekendur hafi talað um.

Í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 sagði Eygló að búið sé að lækka skatta á ferðaþjónustuna, á sjávarútveginn og á atvinnulífið almennt. Þá sé vaxtmunur hjá bönkunum að aukast. Ef atvinnulífið sé ekki að skila þessum skattalækkunum og vaxtamuninum áfram til heimilanna hljóti verkalýðshreyfingin að sækja sér hærri laun til atvinnurekenda.

„Við höfum verið að fara í þess háttar breytingar sem hafa aukið svigrúmið hjá atvinnulífinu. Við sjáum að fyrirtækin eru að skila meiri afgangi og sérstaklega ef við horfum á útflutningsgreinarnar þá tel ég, já alveg sannarlega, að það sé hægt að sækja hærri laun.“