Þróun bréfamagns hefur haft veruleg áhrif á afkomu bréfadreifingar Póstsins en gera má ráð fyrir að tekjur af bréfadreifingu hefðu verið um 1.800 mkr. hærri á árinu 2014 ef verð hefði breyst í samræmi við vísitölu neysluverðs og magn hefði haldist óbreytt frá árinu 2007. Þegar horft er til ársins 2019 má gera ráð fyrir að tekjur verði um 800 milljónum lægri en árið 2014. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandspósti.

Þar segir að magnminnkun á bréfum í einkarétti hafi verið 8,1% á árinu 2014. Frá árinu 2007 hafi verið viðvarandi minnkun í bréfamagni en á tímabilinu hafi magn bréfa lækkað úr rúmum 50 milljónum árið 2007 í um 27,5 milljónir árið 2014, eða um 45%. Spá Íslandspósts gerir ráð fyrir enn frekari magnminnkun á næstu árum en gert er ráð fyrir að hún geti orðið allt að 30% til ársloka 2019.

„Á sama tíma og bréfamagn minnkar eru kvaðir um póstdreifingu þær sömu og dreifikerfið heldur áfram að stækka með fleiri póstlúgum. Burðargjöld eru lægst á Íslandi samanborið við Norðurlöndin, Bretland og Þýskaland samkvæmt nýútkominni skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar í Svíþjóð en á sama tíma eru hlutfallslega fæst bréf á íbúa hér á landi. Íslandspóstur hefur um nokkurt skeið gert tillögur til stjórnvalda um breytingar á fyrirkomulagi bréfadreifingar til þess að mæta auknum kostnaði og minnkandi tekjum af bréfum, en ekki er búið að fallast á þær breytingar enn sem komið er,“ segir í tilkynningunni.