Inga Lind Karlsdóttir.
Inga Lind Karlsdóttir.

„Ég fékk meinfýsnar athugasemdir, bæði í ræðu og riti, frá fólki sem var frekar hneykslað á mér að taka þetta starf að mér. Einn sagði að þetta væri þáttur fyrir neðan mína virðingu, annar sagði að ég þyrfti að ráða mér umboðsmann sem stýrði mér frá svona hallærislegum verkefnum og svo framvegis,“ segir Inga Lind Karlsdóttir, sem stýrði þáttunum Biggest Loser, sem sýndir voru á SkjáEinum í vetur.

Inga Lind segir þáttagerðina hafa verið ólíka öllu öðru sem hún hafi áður gert í sjónvarpi.

„Þetta er ekki bara skemmtilegasta sjónvarpsverkefni sem ég hef tekið þátt í heldur líka sennilega það sem hefur haft mest áhrif út á við enda fengu þættirnir viðtökur sem fóru fram úr björtustu vonum. Keppendurnir voru hver öðrum dásamlegri og þeir gáfu svo mikið af sér sem smitaðist út í allt samfélagið. Árangur keppendanna var líka dásamlegur. Ég gekk um með tárin í augunum fyrir lokaþáttinn af því að þá hafði ég ekki séð þetta frábæra fólk í nokkra mánuði og munurinn á þeim, andlega og líkamlega, var lyginni líkastur. Þvílíkir sigurvegarar,“ segir hún.

Hafði klárað annan þátt um offitu

Hún segir í samtali við Eftir vinnu að hún hafi fundið fyrir fordómum út í keppnina og þátttöku sinni í verkefninu.

„Fordómar finnast því miður alls staðar, hvort sem þeir eru fyrir feitu fólki eða vissum tegundum af sjónvarpsþáttum.Mér fannst hins vegar spennandi að gera eitthvað annað en ég er vön og þar sem ég hafði nýlokið heimildarþáttunum Stóru þjóðinni, sem fjölluðu um offituvanda Íslendinga, var málið mér skylt að einhverju leyti,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Eftir Vinnu blaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gær.