Eftir stóra fasteignabólu hefur íbúðaverð á Spáni lækkað um að minnsta kosti fjórðung frá árinu 2007. Ekki er útlit fyrir að botninum séð náð. Atvinnuleysi mælist nærri 25% og sífellt fleiri geta ekki greitt af lánum sínum. Alls nema fasteignaskuldir um 663 milljörðum evra. Vanskil hafa ekki verið meiri síðan árið 1994.

Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times um vanda Spánverja. Hagfræðingar óttast að einhver af stærstu bönkum landsins muni brátt þurfa á ríkisaðstoð að halda. Í fréttinni segir að óvíst sé hvort ríkissjóður landsins geti staðið undir slíkri aðstoð.

Möguleg áhrif þess á efnahag Evrópu var helsta umræðuefni fundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í síðustu viku. Óttast er að Evrópusambandið þurfi að grípa til aðgerða til þess að aðstoða Spán. Slíkt yrði mun dýrara en aðgerðir í Írlandi, Grikklandi og Portúgal.