Útlit er fyrir að Toyota verði stærsti bílaframleiðandi heims í ár, en General Motors hefur hingað til verið stærsti bílaframleiðandinn. Toyota sagði frá því í dag að salan í ár yrði líklega 9,36 milljónir ökutækja, sem er 6% meiri sala en í fyrra. Áætlanir næsta árs hjá Toyota gera ráð fyrir að salan aukist um 5% í 9,85 milljónir ökutækja. Náist það markmið verður salan meiri en 30 ára gamalt sölumet General Motors upp á 9,55 milljónir ökutækja.

Toyota náði því á fyrri helmingi þessa árs að verða stærsti bílaframleiðandi í heimi en GM náði forystunni eftir fyrstu níu mánuði ársins. Miðað við fyrri spár GM um þetta ár er útlit fyrir að sala ársins verði meiri hjá Toyota, en endanleg áætlun GM fyrir árið liggur ekki fyrir. Verði sala Toyota meiri en hjá GM verður það í fyrsta sinn sem Toyota nær því að verða stærsti bílaframleiðandi heims, mælt í sölu yfir heilt ár, að því er segir í WSJ.