Þrátt fyrir að hver ferðamaður hafi að meðaltali eytt minna í krónum talið árið 2017 heldur en árið á undan þá eykst eyðsla hans í eigin gjaldmiðli en ástæðan þar að baki er gengisstyrking krónunnar. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna nam 259 ma.kr. á síðasta ári og jókst um tæpa 28 ma.kr. milli ára, eða um 12%. Til samanburðar nam fjölgun ferðamanna hingað til lands um Leifsstöð 24%. Hver ferðamaður hefur því að meðaltali dregið úr neyslu sinni um 9,8% mælt í krónum.

Í Hagsjánni segir að þar sem krónan styrktist milli ára sé ekkert óeðlilegt að ferðamenn hafi dregið úr neyslu sinni í krónum ef gert er ráð fyrir að neysla ferðamanna mæld í þeirra eigin gjaldmiðli taki litlum breytingum yfir tíma. Sé neyslan sett á fast gengi sést að neyslan jókst um 25,4% sem er eilítið meira en sem nemur fjölgun ferðamanna. Á þennan mælikvarða jókst neysla meðalferðamannsins því um 0,9% milli ára, mælt í erlendri mynt.

Mesti samdrátturinn í úttektum á reiðufé

Af stærstu kostnaðarliðum meðalferðamannsins var mesti samdrátturinn í úttektum á reiðufé, sem nam 23,3%. Næstmesti samdrátturinn lá í opinberum gjöldum en þau drógust saman um 16,5% milli ára. Þriðji mesti samdrátturinn var í menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi (3,5%) og fjórði mesti samdrátturinn var í verslun (3,1%). Neysla á öðrum liðum jókst milli ára. Mesta aukningin var í bensíni, viðgerðum og viðhaldi bifreiða (8,4%). Næstmesta aukningin var í gistiþjónustu, eða 7,4%.