„Við erum gera það sem við höfum alltaf gert og kunnum, að kaupa, framleiða og selja fisk. Við ætlum að halda áfram að gera það og erum bara rétt að byrja,“ segir Finnbogi Baldvinsson, forstjóri þýska fyrirtækisins Leuchtturm Beteiligungs - und Holding Germany.

Fyrirtækið er móðurfélag framleiðslu- og sölufyrirtækjanna TSP - The Seafood Processor Gmbh og dótturfélags þess, TST- The Seafood Traders Gmbh í Þýskalandi. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu Nippon Suisan, næst stærsta sjávarúvegsfyrirtækis sem skráð er á hlutabréfamarkað í heimi. Finnbogi á hlut í þýska fyrirtækinu ásamt Ingvari Eyfjörð, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Icelandic Group, og öðrum fyrrverandi millistjórnendum hjá Pickenpack í Þýskalandi. Pickenpack var áður hluti af starfsemi Icelandic Group á meginlandi Evrópu.

Þeir Finnbogi og Ingvar sögðu báðir upp störfum hjá Icelandic Group í febrúar í fyrra eftir að Framtakssjóður Íslands sleit viðræðum um sölu á eignum fyrirtækisins til norræna fjárfestingarsjóðsins Triton. Sjóðurinn seldi síðar eignir Icelandic Group í tveimur hlutum. Sjávarútvegsfyrirtækið Pacific Andes frá Hong Kong og fjárfestar frá Rússlandi og Úkraínu keyptu í júní í fyrra reksturinn í Evrópu, þ.m.t. Picpack.

Vinna með japönsku risafyrirtæki

Finnbogi segir þá sem vinni með honum hafa lagt grunninn að fyrirtækjunum í Þýskalandi síðastliðið hálft ár og hjá því starfi nú í kringum 50 manns.

Þeir sem koma að rekstri þýska sjávarútvegsfyrirtækisins hafa lengi starfað með Nippon Suisan, að sögn Finnboga. Japanska fyrirtækið, sem þekkt er í sjávarútvegsgeiranum er undir heitinu Nissui, var stofnað fyrir hundrað árum. Það á 75 dótturfélög og vinnur með 31 fyrirtæki víða um heim.

Fyrirtækið er umsvifamikið í veiðum og vinnslu víða um heim. Það á m.a. fyrirtæki í Alaska auk helmingshlutar í stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Nýja Sjálands. Hluti af framtíðarsýn Nippon Suisan er að fóta sig í Evrópu og þar kemur fyrirtæki Finnboga og samstarfsmanna hans inn í myndina.

Eins og fram kom fyrr í dag þá hefur Arion banki lokið samningum um fjármögnun fyrirtækja undir hatti Leuchtturm Beteiligungs - und Holding Germany. Finnbogi vill ekki gefa upp um hversu háa fjárhæð er að ræða en bendir á að fjármagnið gerir fyrirtækjunum kleift að fjárfesta í tækjabúnaði sem bæti framleiðsluna og auki hagkvæmni. Eiginfjárgrunnur fyrirtækisins er mjög sterkur, að hans sögn.

Björt framtíð í fisksölu

„Þessi rekstur snýst eins og allur annar rekstur um fólk. Þeir sem hafa verið lengi í þessum bransa þekkja þetta. Með samstarfsaðila sem er sífellt að fjárfesta í þessum iðnaði og hefur skýra framtíðarsýn í fisk- og matvælaiðnaði þá erum við sannfærðir um að framtíðin verði spennandi,“ segir Finnbogi.