„Ég bara ákvað að vera ekki með," segir athafnamaðurinn og fjárfestirinn Finnur Ingólfsson. Hann á ekki lengur neitt í skoðunarfyrirtækinu Frumherja en í síðustu viku var frá því greint að fjárhagslegri endurskipulagningu Frumherja væri lokið og Íslandsbanki eignast 80% hlut í félaginu.

Finnur og fleiri fjárfestar keyptu rekstur Frumherja árið 2007 í gegnum félagið Bil ehf. Hann ákvað hins vegar að halda að sér höndum nú og leggja ekki félaginu til fjármagn og tryggja sér áfram hlut í Frumherja.

Fjárhagsleg endurskipulagning á rekstri Frumherja skýrist af tvennu. Annars vegar sliguðu skuldir fyrirtækið og var eiginfjárstaðan neikvæð. Til viðbótar skilaði svokallaður Toyota-dómur í Hæstarétti fyrir að verða ári því að endurskipulagningunni var hraðað. Dómurinn fjallaði í stuttu máli um það að vaxtakostnaður vegna öfugs samruna fyrirtækja er ekki frádráttarbær frá skatti. Frumherji hafði einmitt tekið Bil ehf yfir í kjölfar kaupanna á sínum tíma og greitt af lánum þess. Í kjölfar dómsins voru skattar endurákvarðaðir á fjölda fyrirtækja. Eitt þeirra var Frumherji og var óttast að það gæti haft verulega neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækisins.

Finnur segir í samtali við Viðskiptablaðið ósáttur við dómsniðurstöðuna og endurákvörðunina sem honum fylgdi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum tölublöð .