Tískufréttavefurinn Drapers greindi frá því í gær að hugsanlegur kaupandi hafi lýst áhuga á að kaupa kvenfatakeðjuna Principles sem er í eigu Mosaic Fashions verslunarkeðju Baugs í Bretlandi.

Segir Drapers að önnur vörumerki í tískuvörukeðju Baugs séu einnig möguleg söluvara þó þau séu ekki beinlínis á sölulista. Þá segir að ráðgjafafyrirtækið Hawkpoint haldi utan um fjármálaupplýsingar um alla tískuverslanir undir Mosaic Fashions keðjunni. Þær upplýsingar væru opnar öllum sem sýndu alvarlegan áhuga á kaupum. Í það minnsta einn hópur fjárfesta hafi óskað eftir upplýsingum um Principles. Þá er bent á að Hawkpoint sé nú með skóvöruverslanir Shoe Studio Group í söluferli út úr Mosaic keðjunni.

Ekki hefur náðst í neinn talsmann Baugs vegna þessa, en talið er eins líklegt að menn séu á höttunum eftir upplýsingum til að meta markaðsverðmæti fyrirtækja í Mosaic keðjunni. Eru viðræður sagðar í gangi við Kaupþing um endurfjármögnun Mosaic Fashions en Baugur er einn af stærstu hluthöfum keðjunnar.

Ýmsar getgátur eru á lofti um framtíð Mosaic keðjunnar. Drapers segir að sumir í þessum geira telji að uppbrot á keðjunni myndi geta orðið hluthöfum hagstæð. Aðrir haldi því aftur á móti fram að hagurinn af samlegðaráhrifum í samstæðunni sé það mikill að keðjunni sé betur komið sem einni heild.