Einn af hluthöfum Apple hefur stefnt fyrirtækinu fyrir dómstóli í New York í Bandaríkjunum en hann krefst þess að það geri betur við hluthafa og greiði þeim arð. Hluthafinn heitir David Einhorn og er sjóðsstjóri hjá bandaríska vogunarsjóðnum Green Light Capital. Hann segir í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC stjórnendur Apple aðhyllast einskonar kreppustefnu sem einkennist af því að hamstra fé og eyða ekki meiru en það þurfi.

Apple er með auðugri fyrirtækjum vestanhafs og situr á gríðarlegum sjóðum sem gera lítið annað en að tútna út. Laust fé Apple nam 98 milljörðum dala í mars á síðasta ári en hefur aukist um 40 milljarða síðan þá.

Nokkrir erlendir fréttamiðlar hafa fjallað um mál sjóðsstjórans. Breska ríkisútvarpið (BBC) segir hann hafa reynt að ræða málið við Peter Oppenheimer, fjármálastjóra Apple. Það hafi engu skilað. Af þeim sökum hafi hann reynt að hafa samband við Tim Cook, forstjóra Apple.

BBC segir Einhorn einskonar aðgerðasinna. Hann hafi árið 2011 m.a. sagt Steve Ballmer, forstjóra Microsoft, fastan í fortíðinni og krafist þess að honum verði sparkað.