Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur óskað eftir því við innanríkisráðuneytið að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar sendi frá sér rétt í þessu.

Viðskiptablaðið fjallaði um það fyrr í dag að meirihluti kröfuhafa Reykjanesbæjar og -hafnar hafi synjað því að ganga til samninga á grundvelli samkomulags um fjárhagslega endurskipulagninu Reykjanesbæjar. Niðurfærsluþörf sveitarfélagsins hefði þá numið rúmum 6,3 milljörðum króna.

Meirihluti kröfuhafa samþykkti samkomulagið en það dugði ekki til. Viðunandi niðurstaða náðist því ekki í viðræðum bæjarins við kröfuhafana. Bæjarstjórn stóð þá við fyrri ákvörðun og sendi innanríkisráðuneytinu fyrrnefnda ósk um fjárhaldsstjórn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ lögðu fram þá bókun að það sé skoðun þeirra að hagsmunum Reykjanesbæjar sé best borgið í höndum kjörinna fulltrúa en ekki Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

„Ef ríkið sér ekki ástæðu til að standa með sveitarfélaginu gagnvart föllnu bönkunum sem það sjálft hefur notið góðs af sem og uppbyggingu í Helguvík þá teljum við réttast að það geri sjálft kröfu um yfirtöku á fjármálum sveitarfélagsins fremur en að frumkvæðið sé frá kjörnum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar,” segir enn fremur í bókun Sjálfstæðisflokksins.