Íslenskir lífeyrissjóðir fjármagna beint og óbeint um 77% af öllum íbúðalánum íslenskra heimila. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að þetta megi sjá í gögnum Seðlabanka Íslands um efnahag lífeyrissjóða og samsetningu íbúðaskulda heimila.  Að sögn Jóns Bjarka hefur þetta hlutfall hækkað töluvert frá ársbyrjun 2015, bæði vegna beinna útlána sjóðanna til heimila og vegna kaupa þeirra á sértryggðum skuldabréfum banka. Nú er svo komið að tæpur þriðjungur eigna íslenskra lífeyrissjóða tengist beint eða óbeint íbúðalánum íslenskra heimila.

„Fjármögnun íbúðalána hefur ávallt verið verulegur hluti af ráðstöfun eigna íslenskra lífeyrissjóða undanfarna áratugi," segir Jón Bjarki. „Hefur hún falist í kaupum sjóðanna á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og forvera hans ásamt beinum lánveitingum til sjóðfélaga. Undanfarin átta ár hafa svo kaup á sértryggðum skuldabréfaútgáfum bankanna bæst við, en slík skuldabréf eru gefin út til fjármögnunar á íbúðalánum og eru tryggð með veði í safni slíkra lána. Enn er þó eign sjóðanna í íbúðabréfum og hliðstæðum bréfum með ríkistryggingu bróðurparturinn af fjármögnun þeirra á íbúðalánum."

Í lok september námu eignir lífeyrissjóðanna um 3.700 milljörðum króna. Um 31% eignanna, eða um 1.150 milljarðar, voru í formi íbúðabréfa og húsbréfa, sjóðfélagalána eða sértryggðra bréfa.  Um 25% eignanna var í öðrum innlendum skuldabréfum og þar af voru 9% heildareignar í innlendum ríkisbréfum. Þá voru um 14% heildareigna lífeyrissjóða í innlendum hlutabréfum og um 23% heildareigna þeirra var bundin erlendum fjárfestingum, að mestu leyti í hlutabréfasjóðum.

305 milljarðar

Hlutfall lífeyrissjóðanna í fjármögnun íbúðalána íslenskra heimila  hefur farið hækkandi jafnt og þétt undanfarin misseri vegna lánveitinga sjóðanna og kaupa þeirra á sértryggðum bréfum. Má þar nefna að í árslok 2014 var þetta hlutfall 63%.

„Vissulega hefur þessi staða í för með sér að áföll á íbúðamarkaði geta leitt af sér hættu á útlánatöpum hjá sjóðunum," segir Jón Bjarki. „Þar vegur þó á móti að stærstur hluti þessara eigna þeirra hefur viðbótartryggingu umfram fasteignaveð í formi ríkisábyrgðar eða ábyrgðar bankastofnana á viðkomandi skuldabréfum. Slík viðbótartrygging er hins vegar ekki fyrir hendi þegar kemur að beinum lánveitingum sjóðanna til sjóðfélaga. Slík lán námu í septemberlok 305 milljörðum króna og höfðu þá aukist um nærri 80% frá ársbyrjun 2016."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .