Íslenskir lífeyrissjóðir hyggjast greiða að stærstum hluta 20 til 25 prósent eignarhlut í Arion banka með ríkisskuldabréfum í þeirra eigu. Þetta kemur fram í frétt Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.

Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur Kaupþing sem er að ganga frá sölu á Arion banka í lokuðu útboði, samþykkt að lífeyrissjóðirnir geti framselt til félagsins íslensk ríkisskuldabréf sem greiðslu fyrir kaupum þeirra á hlut í bankanum, segir í fréttinni. Því þurfa lífeyrissjóðirnir hvorki að selja skráð hlutabréf eða ráðstafa hluta af hreinu innflæði til að fjármagna kaupin.

Áður hefur verið greint frá verður kaupverðið á bilinu 70 til 90 milljörðum íslenskra króna og að Kaupþing sé á lokametrunum að selja 40 til 60 prósenta hlut í Arion banka. Söluandvirðið færi í að gera upp  84 milljarða veðskuldabréf sem Kaupþing gaf út til íslenska ríkisins í ársbyrjun 2016. Einnig er búist við því að fjórir bandarískir fjárfestingarsjóðir kaupi allt að 25 prósenta hlut í bankanum. Gert er ráð fyrir að þrír af fjórum stærstu lífeyrissjóðum landsins muni standa að baki þeim hópi lífeyrissjóða sem hyggst kaupa hlut í bankanum í lokuðu útboði, það er; Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður og Birta.