Fjármálaeftirlitið hefur metið Arctica Eignarhaldsfélag ehf. hæft til að fara með virkan eignarhlut í H.F. Verðbréfum hf. Eftirlitið hefur einnig metið Bjarna Þórð Bjarnason og Stefán Þór Bjarnason, sem báðir eru í yfirstjórn Artica, hæfa til að fara með virkan eignarhlut í H.F. Verðbréfum hf., með óbeinni hlutdeild.

Þann 30. september var greint frá því að Artica hefði gengið frá kaupum á öllu hlutafé H.F. Verðbréfa og að félögin myndu renna saman undir merkjum Artica, en kaupin voru háð fyrirvara Fjármálaeftirlitsins.

Heildareignir H.F. Verðbréfa námu í árslok 2014 um 273 milljónum króna og var bókfært virði eigin fjár um 223 milljónir króna. Hjá H.F. Verðbréfum starfa 11 manns. Framkvæmdastjóri er Daði Kristjánsson. Heildareignir Arctica Finance voru í árslok 2014 um 700 milljónir króna og var bókfært virði eigin fjár um 540 milljónir króna. Starfsmenn Arctica Finance eru 18 talsins. Framkvæmdastjóri er Stefán Þór Bjarnason.