FL Group tilkynnir í dag um stofnun dótturfélags í Danmörku, FL Group Denmark Aps. Á síðustu misserum hefur FL Group fjárfest umtalsvert í Danmörku og í ljósi þeirra fjárfestinga hefur félagið ákveðið að koma á fót skrifstofu í Kaupmannahöfn segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Framkvæmdastjóri FL Group Denmark Aps. verður Martin Niclasen en hann stýrði fjárfestingabankastarfsemi FIH Erhversbank og Kaupþings í Danmörku. Martin hefur mikla þekkingu á fjárfestingarstarfsemi og fyrirtækjamarkaðnum á Norðurlöndunum. Eftir nám sitt við Copenhagen Business School vann Martin hjá KPMG Corporate Finance og Carnegie áður en hann gekk til liðs við Kaupþing og síðar FIH.

FL Group hefur hug á að auka umsvif sín á Norðurlöndunum. Fyrirtækið á í dag um 10% hlut í Aktiv Kapital í Noregi, 10% í Finnair, 17% í Royal Unibrew og 10,5% í Bang & Olufsen auk lággjaldaflugfélagsins Sterling sem keypt var í fyrra.

"Við erum mjög ánægð með að Martin skuli hafa ákveðið að ganga til liðs við FL Group og byggja upp starfsemi okkar á Norðurlöndunum. Hann hefur mikla reynslu á þeim sviðum sem FL Group starfar á og teljum við að hann muni nýtast félaginu vel. Markmið okkar er að verða stór þátttakandi í fjárfestingum á Norðurlöndunum en í dag höfum við þegar fjárfest í nokkrum leiðandi fyrirtækjum á svæðinu. Martin mun bera ábyrgð á þessum fjárfestingum og vinna náið með stjórnendum FL Group til þess að tryggja velgengni þeirra verkefna sem eru í gangi hverju sinni. Við bjóðum Martin hjartanlega velkominn til FL Group," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group, í tilkynningunni.

"Það gleður mig að ganga til liðs við FL Group. Þetta er spennandi tækifæri fyrir mig og félagið hefur sýnt fram á vilja til fjárfestinga á Norðurlöndunum. Ég mun hafa tækifæri á að starfa með fjárfestum á mínum heimamarkaði og á sama tíma ganga til liðs við ört vaxandi fyrirtæki með breiða sýn á fjárfestingar. Það eru mörg spennandi verkefni í gangi hjá FL Group og er ég þess fullviss að árið 2006 verði árangursríkt fyrir fyrirtækið," segir Martin Niclasen, framkvæmdastjóri FL Group Denmark Aps í tilkynningunni.