Fleiri fluttust hingað til lands í fyrra en frá því, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Þetta er fyrsta skiptið síðan árið 2008 að svokallaður flutningsjöfnuður er jákvæður. Á öllu síðasta ári fluttust 7.071 samanborið við 5.957 árið 2012. Á sama tíma fluttust 5.473 frá landinu í fyrra. Aðfluttir voru þessu samkvæmt 1.598 fleiri en brottfluttir.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að íslenskir ríkisborgarar voru 877 fleiri en erlendir í hópi brottfluttra eða 3.175 á móti 2.298. Íslenskir ríkisborgarar voru aftur á móti færri meðal aðfluttra en erlendir, 3.139 á móti 3.932. Alls fluttust því 36 íslenskir ríkisborgarar úr landi umfram aðflutta. Aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.634 fleiri en brottfluttir.

Flestir fara til Noregs og Póllands

Flestir þeirra íslensku ríkisborgara sem fluttust úr landi fóru til Noregs, Danmerkur eða Svíþjóðar af 3.175. Flestir fluttust til Noregs, eða 996. Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar voru einnig frá þessum löndum eða 2.224 af 3.139, flestir þó frá Danmörku eða 1.006.

Á sama tíma fluttust flestir erlendir ríkisborgarar til Póllands, eða 526 af 2.298. Þaðan komu líka 1.311 erlendir ríkisborgarar. Þetta flutningsmynstur hefur haldist óbreytt frá því 2009, nema hvað Noregur hefur orðið hlutfallslega vinsælli meðal íslenskra íkisborgara og dregið hefur úr vægi Póllands sem helsta áfangastaðar erlendra ríkisborgara.