Fjórir af hverjum fimm Grikkjum vill halda í evruna sem þjóðargjaldmiðil og meirihluti landsmanna vill halda áfram að njóta fjárhagsaðstoðar frá Evrópusambandinu (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Þetta eru niðurstöður könnunar sem gríska viðskiptablaðið Naftemporiki gerði á dögunum.

Bent hefur verið á að varasamt geti verið fyrir Grikki að kasta evrunni og taka drökmuna upp á ný. Þótt Grikkir muni hafa meiri stjórn yfir efnahagsmálum sínum með drökmuna að vopni er óttast að grískt efnahagslíf geti hrunið við gjaldmiðlaskiptin.

Danska viðskiptablaðið fjallar um könnunina í netútgáfu sinni í dag.

Blaðið hefur eftir Jes Asmussen, aðalhagfræðingi Handelsbanken, að mótsögn felist í niðurstöðum könnunarinnar í ljósi þess að landið uppfylli ekki þau skilyrði sem evruríki þurfi að lúta.

Í könnun blaðsins var jafnframt spurt hvort landsmenn vilji halda í lánasamninga ríkisstjórnarinnar við ESB og AGS sem gerir stjórnvöldum kleift að standa við skuldbindingar sínar. Án lánanna er víst að landið fari í þrot. Niðurstöður könnunarinnar sýna að 54% þátttakenda var fylgjandi því að standa við samningana en 38% voru á móti því.

Í kjölfar þess að ESB og AGS og fulltrúr kröfuhafa gríska ríkisins ákváðu að veita Grikkjum neyðarbjörgunarlán fyrir áramót hafa landsmenn þurft að taka á sig harkalegan niðurskurð í ríkisfjármálum, skattar verið hækkaðir og fjölmargir ríkisstarfsmenn misst vinnuna. Grikkland hefur meira og minna logað í mótmælum síðan þá. Ekki hefur bætt úr skák að stjórnmálaflokkum þar í landi hefur ekki gengið að mynda nýja ríkisstjórn.