Í marsmánuði tóku að jafnaði þrjátíu farþegaþotur á loft frá Keflavíkurflugvelli dag hvern. Það er helmingi meiri umferð en í sama mánuði á síðasta ári, þegar boðið var upp á tuttugu flug á dag. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Túrista .

Níu flugfélög buðu upp á áætlunarferðir frá Keflavík til útlanda í mánuðinum og jukust umsvif þeirra allra frá sama tíma í fyrra að Wow air undanskildu. Mest var viðbótin hjá Icelandair og Easyjet sem bæði bættu við 51 ferð. Þriðja mánuðinn í röð er Easyjet annað umsvifamesta félagið á flugvellinum.

Þótt Icelandair hafi bætt við sig ferðum minnkaði vægi flugfélagsins umtalsvert milli ára. Í fyrra nam hlutdeildin 71,8 prósentum, en nú var hún 66,4 prósent. Easyjet hafði 13,1 prósent hlutdeild í mánuðinum, en Wow air hafði 10,9 prósent hlutdeild.