Flugvélin Solar Impulse hefur lokið sögulegu 8.000 kílómetra flugi milli Japan og Havaí. Um er að ræða lengstu vegalengd sem mönnuð sólarorkuknúin flugvél hefur lagt að baki í einum rykk.

Jafnframt er flugtíminn heimsmet. Hið 8.000 kílómetra flug tók 118 klukkustundir. Það þýðir að flugvélin flaug á um 70 kílómetra hraða að jafnaði.

Markmið flugmannanna Andre Borschberg og Bertrand Piccard er að fljúga vélinni í kringum hnöttinn. Ferð þeirra hófst í Abu Dhabi í mars síðastliðnum. Þaðan var flogið til Nanjing í Kína í nokkrum áföngum, en leiðin frá Japan til Havaí er lengsti leggurinn á leiðinni.

Frá Havaí verður flogið til Phoenix í Arizona-fylki, og þaðan í nokkrum áföngum til Abu Dhabi. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að vekja athygli á þeim möguleikum sem felast í notkun endurnýjanlegra orkugjafa.

Vænghaf Solar Impulse vélarinnar er 72 metrar, en hún er ekki nema um 2.300 kíló að þyngd.