Hollenskir rannsóknaraðilar gáfu í morgun út bráðabirgðaskýrslu um MH17, flugvél Malaysia Airlines, sem fórst yfir Úkraínu þann 17. júlí sl.

Flugvélin fórst yfir svæði sem stjórnað var af rússneskum aðskilnaðarsinnum og létust 298 manns. Var mikill meirihluti þeirra hollenskir ríkisborgarar.

Fram kemur í skýrslunni að ekkert óeðlilegt hafi komið fram í samskiptum flugmanna vélarinnar áður en hún fórst. Þá er sagt að ekkert bendi til þess að tæknileg atriði hafi valdið því að flugvélin fórst, og ljóst sé að vélin hafi brotlent eftir að fjölmargir utanaðkomandi hlutir gerðu göt á skrokkinn þannig að hún leystist upp í háloftunum.

Bandaríkin og Úkraínumenn halda því fram að rússneskir aðskilnaðarsinnar hafi grandað flugvélinni með flugskeyti, en þeir neita sök.