Þann 24. október 2001 sendi starfsmaður Skeljungs tölvupóst til sölustjóra á markaðssviði smásölu hjá fyrirtækinu. Greindi hann frá því að Skeljungur hefði á sínum tíma hækkað verð á 5 ltr. bensínbrúsum og þ.a.l. skilagjald á brúsunum vegna þess að fólki hafi ekki fundist þess virði að skila þeim. Brúsar Olís og Skeljungs séu mjög líkir og verð á Olís brúsunum sé 150 kr. Viðskiptavinir séu nú farnir að leika þann leik að kaupa brúsa hjá Olís á 150 kr. og skila þeim hjá Skeljungi og fá 300 kr. fyrir brúsann. Vandinn liggi í því að ekki sé verið að selja þessa brúsa á sama verði hjá félögunum. Síðan segir:

?Hér var því hvíslað að mér að þú værir rétti maðurinn til þess að tala við
þá hjá Olís og athuga hvort þeir væru ekki til í að hækka sína brúsa líka.?
Sölustjórinn hjá Skeljungi framsendi þennan tölvupóst til Tómasar Möller, framkvæmdastjóra markaðssviðs smásölu hjá Olís, og bað hann um að upplýsa hvernig þessum málum væri háttað. Framkvæmdastjórinn hjá Olís svaraði með eftirfarandi hætti þann 30. október 2001:
"er að láta skoða
kem til baka
fólk er fífl!!!!"

Verð á bensínbrúsum hjá Olís var síðar hækkað í 300 kr. Þann 15. nóvember 2001 sendi starfsmaður Skeljungs tölvupóst til umrædds sölustjóra hjá félaginu og greindi frá því að Skeljungur væri með hæsta verð á tiltekinni tegund rafgeyma og það hefði áhrif á sölu.