*

mánudagur, 1. mars 2021
Erlent 11. janúar 2021 08:10

„Fólk er fljótt að gleyma“

Framkvæmdastjóri hjá Deutsche bank spáir því að atvinnulífið fari að ná sér í ár eftir högg faraldursins.

Júlíus Þór Halldórsson
„Það var engin spurning um hvað þyrfti að gera, og því lítil umræða. Þetta var bara gert,“ segir Jan um viðbrögð yfirvalda við efnahagsáhrifum faraldursins.
Aðsend mynd

Jan Olsson er framkvæmdastjóri alþjóðlega fjárfestingabankans Deutsche bank á Norðurlöndunum. Hann segir fjármálaheiminn hafa náð sér hratt og örugglega eftir áfall síðasta vors þegar faraldurinn skall á, þökk sé aðstoð seðlabanka og ríkisstjórna.

Þótt höggið á aðra hluta atvinnulífsins hafi rist dýpra býst hann við að hagkerfið í heild taki að ná kröftum sínum á ný á þessu og næsta ári. Áhrif faraldursins verði fyrst og fremst þau að flýta fyrir ýmiss konar þróun sem þegar hafi verið að eiga sér stað, á borð við tækniframfarir og ris og fall tiltekinna atvinnugreina.

Sjá einnig: Erlendir bankar ekki á leið hingað

„Síðasta ár byrjaði mjög vel á fjármálamörkuðum. Svo kom höggið vegna faraldursins í seinni hluta mars og Dow Jones hlutabréfavísitalan féll um þriðjung, úr 30 þúsund stigum í tæp 20 þúsund, á nokkurra daga tímabili.“

Jan segir hrun vísitölunnar síðan hafa haft keðjuverkandi áhrif á önnur félög og kauphallir. „Andrúmsloftið var afar þungt. En svo fóru hlutirnir að batna í apríl þegar ríkið og seðlabankar gripu inn í.“

Ólíkt hruninu 2008 hafi viðbrögðin verið afar snögg, enda vandinn annars eðlis. „Það var engin spurning um hvað þyrfti að gera, og því lítil umræða. Þetta var bara gert. Markaðir náðu sér fljótt á strik og sá fyrsti til þess var skuldabréfamarkaðurinn.“

Óvenjumargir samrunar og yfirtökur
Fyrirtæki endurfjármögnuðu sig í stórum stíl í kjölfar vaxtalækkana, sem skilaði sér í metveltu á skuldabréfamarkaði. Í kjölfarið hafi hlutafjármarkaðir tekið við sér, og í dag sé orðið nóg að gera við samruna og yfirtökur, sem fækkað hafði verulega fyrr á árinu. „Það er mjög áhugavert að sjá svo mikið líf á þeim markaði, sem vanalega liggur niðri á þessum tíma árs.“

Þvert á dómsdagsspár hagfræðinga og greiningaraðila í upphafi faraldursins í mars og apríl segir Jan fjármálamarkaðinn vera í mun betra ásigkomulagi en búast hafi mátt við í byrjun síðasta árs.

„Ísland og hin Norðurlöndin eru þar engar undantekningar, enda alþjóðahagkerfið orðið svo samtvinnað að heildarþróun þess hefur áhrif á hvert og eitt þeirra hagkerfa sem það samanstendur af,“ segir hann og bætir við að útlitið fyrir árið í ár sé afar gott. „Ég spái því að viðspyrnan á fjármálamarkaði haldi áfram á alla helstu mælikvarða.“

Fer að birta til í ár
Sú viðspyrna haldist í hendur við bættar efnahagshorfur almennt, enda endurspegli fjármálamarkaðir þegar allt kemur til alls stöðuna í atvinnulífinu í heild. „Neikvæð áhrif faraldursins hafa verið bæði þung og víðtæk, og viðsnúningurinn ekki verið jafn snöggur og hraður í flestum greinum og hann var á fjármálamörkuðum. Við spáum því þó að á þessu og næsta ári taki að birta til þar líka.“

Það verði kannski ekki strax á þessum ársfjórðungi, en hægt og rólega muni fólk fara að ferðast á ný. „Fólk er fljótt að gleyma og á endanum fer það að fyllast von á ný.“

Nánar er rætt við Jan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Deutsche bank Jan Olsson