Þorsteinn G. Gunnarsson hefur verið ráðinn forstjóri Opinna kerfa ehf. frá og með 1. mars, segir í fréttatilkynningu.

Þorsteinn tekur við af Gylfa Árnasyni sem gegnt hefur stöðunni frá júní lokum síðastliðnum. Gylfi mun helga sig á ný starfi forstjóra Opin Kerfi Group hf. og stjórnarformennsku dótturfélaga Opin Kerfi Group á Íslandi, í Svíþjóð og í Danmörku.

Þorsteinn Gunnarsson er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands, og með Meistarapróf frá University of Washington. Þorsteinn var sérfræðingur hjá Kerfisverkfræðistofu Verkfræðistofnunar HÍ og stundakennari við HÍ. Hann hóf störf hjá Opnum kerfum 1996 sem sérfræðingur, síðar þjónustustjóri og nú síðast var hann framkvæmdastjóri ráðgjafar- og þjónustusviðs. Þorsteinn er giftur Herdísi Rafnsdóttur og eiga þau saman drengina Rafn Viðar og Gunnar Smára.

Samhliða þessum breytingum tekur Gunnar Guðjónsson við framkvæmdastjórn ráðgjafar- og þjónustusviðs Opinna kerfa ehf. Gunnar er rekstrarhagfræðingur frá Strathclyde University í Skotlandi. Gunnar starfaði hjá Vífilfelli sem sölustjóri og kom síðan til Opinn kerfa árið 2000 sem markaðsstjóri og síðar sem þjónustustjóri. Gunnar er í sambúð með Ingu Sigríði Harðardóttur og eiga þau börnin Ólöfu Rósu og Hörð Inga.

Breytingar urðu á hinum tekjusviðum félagsins í október síðastliðnum og gegna framkvæmdastjórastörfum þar þau Halldóra Matthíasdóttir (sölusvið) og Sverrir Jónsson (heildsölusvið).

Opin kerfi ehf. hófu starfsemi árið 1985 og er félagið dreifingar-, þjónustu- og söluaðili á Íslandi fyrir Hewlett-Packard og fleiri tæknifyrirtæki. Hjá félaginu vinna um 110 manns og árleg velta er um 3,5 milljarðar króna.