Bandaríski bílaframleiðandinn Ford Motor hefur ákveðið að auka framleiðslu og lækka verð á rafbílnum Mustang Mach-E um allt að 8,8%. Félagið er með þessu að fylgja í fótspor Tesla sem lækkaði nýlega verð á vinsælum gerðum hjá sér um allt að fimmtung.

Ford sagði að framfarir í aðfangakeðjunni fyrir rafbílaframleiðsluna gerðu félaginu kleift að lækka verð. Auk þess séu verðlækkanir til þess fallnar að auka samkeppnishæfni í ljósi „hraðra breytinga á markaðnum“.

„Við ætlum ekki að gefa eftir hlutdeild til nokkurs aðila,“ er haft eftir Marin Gjaja, framkvæmdastjóra á neytendasviði Ford, í frétt Wall Street Journal.