Forsetakosningar fara fram í Sýrlandi í dag og eru miklar öryggisráðstafanir gerðar vegna þess.

Á vef BBC segir að búist sé við því að Bashar al-Assad verði endurkjörinn forseti til næstu sjö ára. Gagnrýnendur sýrlenskra stjórnvalda segja aftur á móti að alls ekki sé staðið eðlilega að kosningunum.

Borgarastyrjöld hefur ríkt í Sýrlandi í þrjú ár og hafa tugþúsundir manna látið lífið. Sérfræðingar um ástand mála í Sýrlandi segja að yfirvöld þar vilji láta líta svo út að kosningarnar séu leið til þess að lesa úr því ástandi sem ríkt hefur.

Í fyrsta sinn í langan tíma eru fleiri en eitt nafn – nafn úr Assad-fjölskyldunni- á kjörseðlinum í kosningunum nú.