Þeir sem teljast til viðskiptalífsins bera ríka ábyrgð á því hvernig komið er. Ef til vill ríkari ábyrgð en nokkur annar einstakur aðili hér á landi, enda þótt nú verði allir að líta í eigin barm og horfast í augu við hvað betur hefði mátt fara.

Þetta kom fram í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Hún sagði að vissulega hefðu stjórnvöld átt að grípa inní, setja reglur og tryggja að staða mála kæmist ekki í óefni. Þá hefðu eftirlitsstofnanir brugðist og forsætisráðherra sagði þær bera mikla ábyrgð á því að svo fór sem fór.

„Það réttlætir hins vegar ekki þau vinnubrögð og þær aðferðir sem beitt var af hálfu athafnamanna,“ sagði Jóhanna.

„Græðgin varð skynseminni yfirsterkari. Áhættusækni og óhóf varð einkenni alltof margra fyrirtækja og alltof margir forystumenn atvinnulífsins misstu fótanna í þessum takti. Kannanir sýna að almenningur telur að þeir sem stýrðu bönkunum beri mesta ábyrgð á því hvernig komið er fyrir okkur hér á landi og flestir sérfræðingar sem hafa farið yfir þróun mála eru sömu skoðunar.“

Þá sagði Jóhanna að viðskiptalífið hér á landi, og víða annars staðar, hefði slitið sig úr siðferðislegu sambandi við þjóðina. Fyrir það blæði almenningur nú þegar á fjórtánda þúsund manna ganga atvinnulausir og gríðarlegir fjármunir hafa tapast hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Þá sagði hún að meðal þeirra sem hafa misst vinnuna eru hundruð fyrrverandi starfsmanna fjármálastofnana sem unnu störf sín af bestu samvisku.

„Þetta fólk og fjölskyldur þeirra berjast nú fyrir því dag frá degi að lifa mannsæmandi lífi. Það héldum við Íslendingar að heyrði sögunni til,“ sagði Jóhanna.

„Ég heiti á alla þá sem telja sig hafa farið óvarlega og sýnt óhóf að leggja nú sitt af mörkum til samfélagsins. Ég trúi því ekki að ungt og öflugt athafnafólk vilji segja sig svo úr lögum við samfélag sitt að það þurfi að sækja fjármuni þeirra í erlend skattaskjól með mikilli fyrirhöfn á kostnað skattborgara. Því miður er það svo að við munum þurfa öflugar rannsóknardeildir til að upplýsa um skatta- og eignamál og alþjóðlega ráðgjafa til þess að sækja umtalsverða fjármuni sem samfélagið þarfnast nú.“

Þá sagði Jóhanna að aldrei fyrr hefði verið jafn rík þörf á því að viðskiptalífið sýni samfélagslega ábyrgð og leggi sitt af mörkum. Aldrei fyrr hafi verið jafn ríki þörf fyrir jafnræði og virðingu og afar mikilvægt er að Ísland nýti þann mikla mannauð sem þjóðin búi yfir.

„Við eigum að tryggja báðum kynjum aðkomu að stjórnun í viðskiptalífi og þeirri uppbyggingu sem framundan er,“ sagði Jóhanna.

„Rannsóknir sýna að fyrirtækjum vegnar betur þegar bæði kynin eru við stjórnvölinn. Ekkert fyrirtæki hefur efni á að horfa framhjá því. Konur hafa því miður ekki komist í valdastólana í íslensku viðskiptalífi eða fjármálakerfinu þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir. Því verðum við að breyta.“