*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Innlent 23. mars 2020 18:39

Forstjóri Festi fær fimm mánaða bónus

Tekjur Eggerts Þórs Kristóferssonar hækkuðu um nærri fimmtung milli ára. Framkvæmdastjóri Krónunnar fékk tvöfaldan bónus.

Ritstjórn
Eggert Þór Kristófersson er forstjóri Festi, sem áður hét N1, en félagið rekur m.a. eldsneytisstöðvar undir því merki sem og verslanirnar Krónuna og Elko.

Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi fékk í heildina 73,4 milljónir króna í laun, hlunnindi og árangurstengdar greiðslur á síðasta ári, sem er aukning um tæplega 19% frá árinu áður þegar hann fékk í heildina 61,7 milljónir króna, að því er lesa má úr kynningu á aðalfundi félagsins.

Miðast greiðslurnar við afkomu ársins 2018, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma var hann með 70,5 milljónir í heildina árið 2017, þar af 21 milljón krónur í árangurstengdar greiðslur, vegna afkomu ársins 2016, sem er litlu minna en hann fær nú.

Framkvæmdastjóri Krónunnar fékk svo í fyrra tvöfalt hærri bónus en aðrir framkvæmdastjórar hjá dótturfélögum Festi, eða sem jafngildir sex mánaða launum í stað þriggja mánaða launa. Gréta María Grétarsdóttir tók við stöðunni í septemberbyrjun 2018, en hún var handhafi Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar fyrir hönd Krónunnar um síðustu áramót.

Eggert Þór fékk hins vegar jafngildi 5 mánaða kaupauka í fyrra, sem nam í heildina 23,4 milljónum króna, svo mánaðartekjur hans fóru úr ríflega 5,1 milljón árið 2018, í rétt rúmlega 6,1 milljón á síðasta ári.