*

sunnudagur, 29. nóvember 2020
Innlent 30. desember 2019 10:30

Gréta María og Krónan fá Viðskiptaverðlaunin

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Trausti Hafliðason
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, hlýtur í dag Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2019. Krónan hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir að hafa markvisst lagt áherslu á umhverfis- og lýðheilsumál í sínum rekstri.

Ljóst er að yfirstandandi rekstrarár verður það stærsta í sögu félagsins og þá stefnir allt í að Krónan muni skila methagnaði á árinu 2019. Reksturinn hefur verið yfir áætlunum á fyrstu þremur ársfjórðungum 2019. Veltan á fyrstu níu mánuðum ársins nam 27,1 milljarði króna og því líklegt að hún verði á bilinu 35 til 36 milljarðar á rekstrarárinu. Til samanburðar nam veltan um 28 milljörðum árið 2018, sem og árið 2017. Síðustu þrjú ár hefur Krónan skilað á bilinu 700 til 850 milljóna króna hagnaði á ári. Á þessu ári stefnir í að hagnaðurinn fari yfir milljarð.

Gréta María tók við sem framkvæmdastjóri Krónunnar í september árið 2018 og hefur látið til sín taka allt síðan.

„Reksturinn gengur mjög vel,“ segir Gréta María í viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. „Við finnum að áherslur okkar í umhverfis- og lýðheilsumálum, skipta viðskiptavinina máli. Við erum enn á þeim stað þegar við opnum nýja verslun að þá erum við ekki að taka af sjálfum okkur. Það eru enn ýmsar staðsetningar, markaðssvæði, sem við erum ekki inni á og það eru tækifæri fólgin í því fyrir okkur. Við sjáum frekari tækifæri til vaxtar.“

Í apríl 2019 fékk Krónan Kuðunginn, sem er umhverfisviðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Viðurkenninguna fékk Krónan fyrir að hafa síðustu árum markvisst unnið að samfélagslegri ábyrgð og umhverfismálum í sínum rekstri. Í nóvember hlaut fyrirtækið viðurkenningu frá Samtökum atvinnulífsins fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Viðurkenninguna fékk Krónan fyrir að hafa haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt og fyrir að sýna frumkvæði með nýjum verkefnum til að draga úr sóun og umhverfisáhrifum fyrirtækisins. Þessu til viðbótar fengu tvær verslanir Krónunnar svansvottun Umhverfisstofnunar núna í haust og er það í fyrsta skiptið sem verslun fær slíka vottun.

Ítarlegt viðtal við Grétu Maríu Grétarsdóttur er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Gréta María tekur á mótu verðlaununum í Hörpu í hádeginu í dag.