Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segist sáttur við hvernig fyrirtækið hefur farið í gegnum efnahagshrunið. Það stendur nú traustum fótum. Um mitt síðasta ár var eigið fé þess 8,4 milljarðar króna, en samkvæmt lögum er lágmarksgjaldþol þess um tveir milljarðar. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var um mitt síðasta ár rúmlega 26%.

Þú tekur við stjórnartaumunum ungur að árum (31 árs), haustið 2007. Hefur reynsluleysi sagt til sín, ekki síst þegar horft er til þessara erfiðu aðstæðna sem hér hafa verið í rúmlega þrjú ár?

„Ég er ánægður með það hvernig til hefur tekist á þeim tíma sem ég hef verið forstjóri TM. Árangurinn í rekstrinum er hins vegar fyrst og fremst öllu starfsfólki TM að þakka. Stefnan, sem ég hef fylgt frá því að ég tók við, hefur að mínu mati reynst félaginu afar vel og gert það að verkum að það er með sterka stöðu. En það hefur margt verið krefjandi og erfitt sem tengst hefur rekstri félagsins. Til dæmis voru samskipti við norska aðila vegna Nemi, sem við áttum, oft erfið og það mætti okkur töluverður mótbyr, ekki síst eftir að bankakerfið hrundi hér á landi. Við fengum að heyra það ítrekað að okkur væri ekki treyst og að við hefðum ekki getu til þess að styðja við félagið. Þessu fylgdi mikið álag. Þetta var hálfgerð rússíbanareið eftir að bankakerfið hrundi og kannski hefði það hjálpað til að vera með lengri starfsaldur. Það hjálpaði mikið að ég var með 10 ára reynslu af tryggingarekstri þegar ég tók við sem forstjóri TM og þekkti vel allt sem sneri að tryggingarekstri. Það sem öllu skiptir er góð stefna og skýr sýn á það hvernig vandamál eru leyst. Sem betur fer vorum við búin grípa til réttra aðgerða þegar allt hrundi haustið 2008, sem gerði það að verkum að félagið hafði burði til þess að lifa þessar hremmingar af. Þar munaði mestu um að hafa minnkað skipulega eign í hlutabréfum frá haustmánuðum 2007. Fyrir vikið áttum við mikið lausafé og ríkisskuldabréf þegar allt hrundi. Um tíma var ástandið þó mjög ótryggt og við vissum ekki hvort féð væri tryggt eða eignir okkar almennt. Óvissan var mjög mikil. En þegar rykið tók að setjast, var ljóst að við höfðum haldið nokkuð vel á spilunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.