Rætt er um að þjóðnýta fjárfestingalánasjóðina Fannie Mae og Freddie Mac. Í frétt Bloomberg segir þó að þeir ættu ekki að treysta á að stjórnvöld bjargi sér á næstunni, en nái tap sjóðanna 77 milljörðum Bandaríkjadala yrðu þau þó að grípa til björgunaraðgerða.

Joshua Rosner, hjá greiningardeild Graham Fisher & Co., segir að þjóðnýting sjóðanna sé meðal úrræða sem rædd eru af bandarískum stjórnvöldum.

Rosner átti fund með fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson. Hann segir þó að ekki sé þörf á að taka ákvörðun um þjóðnýtingu strax.

Henry Paulson sagði í dag að stjórnvöld einbeiti sér nú að því að halda sjóðunum í óbreyttu horfi og að viðræður milli manna um framtíð þeirra haldi áfram.

Fannie Mae og Freddie Mac eiga eða ábyrgjast um helming þeirra 12 billjarða Bandaríkjadala sem útistandandi íbúðalán þar í landi nema nú.

Sjóðirnir hafa þegar sankað að sér 20 milljörðum Bandaríkjadala til að ráða við tapreksturinn, en vanskil í Bandaríkjunum hafa ekki verið meiri í 29 ár.