Sú kaupmáttarskerðing sem íslenskir launaþegar hafa orðið fyrir undanfarna 12 mánuði á ekki sinn líka frá því stöðnunarskeið gekk yfir hagkerfið í kjölfar þjóðarsáttarinnar í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

„Horfur eru hins vegar á því að kaupmáttarskerðingin verði talsvert meiri nú en þá áður en yfir en horfur á vinnumarkaðinum eru dökkar og verðbólgan framundan talsverð,“ segir í Morgunkorni.

Þá kemur fram að þrátt fyrir 9% hækkun launavísitölunnar undanfarið ár hefur kaupmáttur launa dregist saman um tæp 5%, ef miðað er við þróun vísitölu neysluverðs.

Einnig kemur fram að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna, að frádregnum skattgreiðslum og fjármagnskostnaði, hefur svo væntanlega dregist enn meira saman þrátt fyrir lækkun tekjuskatthlutfalls um 1% í ársbyrjun.

„Því veldur ekki síst aukin greiðslubyrði af gengistryggðum lánum,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

„Gengistryggð lán námu tæpum 13% af heildarskuldum heimilanna um mitt ár, og miðað við gengisþróun síðan má ætla að greiðslubyrði þessara lána hafi aukist um allt að fjórðung síðan þá.“

Launahækkunum stillt í hóf

Greining Glitnis segir útlit vera fyrir talsverða hækkun neysluverðlags á komandi mánuðum. Útlit á vinnumarkaði sé ekki bjart um þessar mundir og launaskrið verði trúlega í lágmarki næstu misseri.

Þá segir greiningardeildin að svo virðist sem samningsbundnum hækkunum verði stillt í hóf við endurskoðun kjarasamninga í vetur í ljósi bágs efnahagsástands.

„Loks mun talsverður hluti vinnuaflsins ýmist verða án atvinnu næstu mánuðina eða þurfa að sætta sig við verulega launalækkun í nýju starfi,“ segir Greining Glitnis.

„Þessi kaupmáttarrýrnun er þegar farin að endurspeglast í minni einkaneyslu og mun sú þróun halda áfram næstu misserin.“