*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 17. september 2018 13:04

Fremstir meðal íslenskra hakkara

Liðið Conzensys vann fyrstu verðlaun meðal íslenskra keppenda í hinni alþjóðlegu hakkarakeppni IceCTF.

Ritstjórn
Hlynur Óskar Guðmundsson frá Syndis, Valtýr Kjatansson, Bjartur Thorlacius, Hjörvar Ingvarsson í Conzensys, og Gísli Hjálmtýsson frá Háskólanum í Reykjavík.
Aðsend mynd

Conzensys vann fyrstu verðlaun meðal íslenskra liða í hinni alþjóðlegu hakkarakeppni IceCTF. Liðið samanstóð af þeim Valtý Kjartanssyni, Bjarti Thorlacius, og Hjörvari Ingvarssyni. Sigurvegari í alþjóðlegu keppninni var liðið Perfect Blue frá Bandaríkjunum.

IceCTF keppnin var stofnuð af nemendum í Háskólanum í Reykjavík árið 2015, og Syndis og HR hafa verið bakhjarlar hennar frá upphafi.

Íslenskir hakkarar höfðu aðstöðu í nýjum höfuðstöðvum Syndis í Katrínartúni í keppninni og voru meðal 3 þúsund þátttakenda frá 118 löndum.

Í tilkynningu um málið er sagt frá því að þátttakendur hafi keppt hvor við annan samhliða því að auka þekkingu sína og færni við hugbúnaðarþróun í gegnum Adversary öryggis- og þjálfunarlausn frá Syndis, meðal annars að brjótast inn í kerfi sambærileg þeim sem finnast í fyrirtækjum ásamt því að brjóta veikleika í dulkóðun. Hakkarakeppnin stóð yfir dagana 6. til 13. september.

„Það er ánægjulegt að fylgjast með forriturum um allan heim setja sig í spor hakkara með því að nýta öryggisþjálfunarlausn okkar. Á þennan hátt gefst þeim tækifæri að prófa sig áfram án þess að brjóta lög og á sama tíma erum við að efla tölvuöryggisþekkingu þátttakenda. Adversary er verkefna- og þjálfunarkerfi sem gefur forriturum og öðrum í þróun tækifæri á að fræðast, á verklegan hátt, um hættur og ógnir við netárasir og upplifa raunverulegar afleiðingar af einföldum mistökum við hugbúnaðarþróun með því að setja sig í spor hakkarans,“ segir Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis, og bætir við: „Það er ljóst að netárásir eru að aukast hratt í heiminum. Stjórnendur fyrirtækja þurfa að huga vel að sínum  upplýsingaöryggismálum með það markmiði að minnka líkur á að þeirra fyrirtæki verði fyrir barðinu á netárásum og öllum kostnaði og álitshnekkjum sem þeim fylgja.“