Tíðindi af miklum verðmætum í jörðu í Afganistan í formi kopars, gulls, lithium og fleiri málma, hafa vakið upp margvíslegar vangaveltur og sögð varpa nýju ljósi á tilgang hernaðar Bandaríkjamanna í landinu. Talið er að verðmæti vinnanlegra málma sem finna má í Afganistan kunni að nema um 1 billjón dollara (1.000.000.000.000). Eru því taldar miklar líkur á að Bandaríkjaher ætli sér að dvelja áfram í landinu um ótiltekinn tíma til að verja fjárhagslega hagsmuni sem felast þar í námuvinnslu.

Í New York Times var varpað upp mynd af málinu á mánudag. Þar kemur fram að Bandaríkjaher og leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA hafi sýnt möguleikum á námuvinnslu í Afganistan mikinn áhuga að minnsta kosti síðan 2004. Þá hafi bandaríska jarðfræðistofnunin, U.S. Geological Survey, hafið skipulagða vinnu við jarðfræðirannsóknir fyrir þessa aðila á árinu 2006. Þar að auki hafi sérdeild varnamálaráðuneytisins hafið vinnu við verkefnið á síðasta ári. Greint er frá því að hópur námusérfræðinga, þar á meðal frá bandarískum fyrirtækjum, séu nú að skoða skuldastöðu Afganistan með tilliti til hagnýtingar á málmum í jörðu í landinu og markaðssetningu. Það er í ljósi þess að stjórn sem hefur jafn veikan efnahagsgrunn að byggja á og stjórnvöld í Kabúl liggja einstaklega vel við höggi og eru talin líkleg til mútuþægni. Engir innviðir né tæknileg þekking er talin vera í landinu til að takast á við ágeng námufyrirtæki. Er bent á sambærileg dæmi eins og í Kongó þar sem spilltir embættismenn eru taldir hafa makað krókinn með mútuþægni úr hendi námufyrirtækja.

Það eru ekki síst vitneskjan um umtalsvert magn lithíum í jörðu sem vekur áhuga Bandaríkjamanna. Þessi málmtegund er afar mikilvæg í smíði á nýjustu gerðum rafhlaða. Síðan er gull og aðrar verðmætar og sjaldgæfar málmtegundir sem þarna er að finna m.a. eru notaðar í flugskeyti, farsíma, fartölvur, vindrafstöðvar og fleira.

Í umfjöllun Post-Gazette í Pittsburgh í Bandaríkjunum eru einmitt vangaveltur um að fyrir utan peningahliðina, þá vilji Bandaríkjamenn tryggja sínum fyrirtækjum forgang að námum í Afganistan í samkeppni við fyrirtæki frá öðrum löndum eins og Kína. Kínverjar eru þegar vel meðvitaðir um verðmæta málma í Afganistan og tókst á síðasta ári að ná samningum við stjórnina í Kabul sem heimilar þeim vinnslu á kopar. Er talið að Kínverjar hafi greitt um 30 milljónir dollara í mútur til að ná þeim samningum.

Áhrifin námuvinnslu í Afganistan geta orðið gríðarleg fyrir efnahag ríkisins. Innanlandsframleiðsla er talin nema um 12 milljörðum dollara og er helsta tekjulindin framleiðsla á ópíum. Þó námuvinnsla verði umsvifamikil er ekki talið að Afganir leggi niður ópíumrækt. Þvert á móti muni tekjur af námuvinnslunni koma sem viðbót við myndarlega valmúa- og hampræktun og vinnslu á eiturlyfjum.

Í grein Post-Gazette er því spurt hvort vitneskjan um verðmæta málma í jörðu í Afganistan hafi spilað stóra rullu í ákvörðun Bush á sínum tíma og nú Obama Bandaríkjaforseta um að styrkja hernaðarstöðu Bandaríkjamanna í landinu. Þá er einnig spurt hvers vegna þessar upplýsingar um verðmæt jarðefni séu fyrst að koma upp á yfirborðið núna. Stofnanir í Bandaríkjunum hafi haft vitneskju og unnið markvisst að málinu að minnsta kosti frá 2004. Spurt er hvort þessi fréttaflutningur nú hafi eitthvað með harða gagnrýni á hernaðarbröltið og mikið mannfall að undanförnu að gera. Einnig þá staðreynd að staðreynd að stríðið sem átti að losa heiminn við Talibana er nú að verða níu ára gamalt og engin niðurstaða í sjónmáli.