Stjórnvöld tóku ákvörðun um það í hádeginu í dag að renna SpKef sparisjóði inn í Landsbanka Íslands. Spkef hafði þá verið til frá 23. apríl 2010, eða rúma tíu mánuði, eftir að hafa verið stofnaður á rústum Sparisjóðsins í Keflavík.

Saga Sparisjóðsins frá hruni hefur verið ansi skrautleg og komið hefur í ljós að þær upplýsingar sem gefnar voru um virði eigna hans hafa ekki átt sér neinar stoðir í raunveruleikanum. Auk þess hafa komið fram upplýsingar um svartar skýrslur, afskriftir, starfslokasamninga og glórulausa útlánastefnu sem vakið hafa mikla athygli í samfélaginu.

Á grundvelli yfirlýsingar um 100% tryggingu ríkissjóðs á öllum innstæðum íslenskra fjármálafyrirtækja höfðu stjórnvöld lofað að endurfjármagna SpKef og leggja honum til það fé sem þyrfti til að mæta innlánum og uppfylla skilyrði Fjármálaeftirlitsins (FME). Þegar ljóst var að sú endurfjármögnun myndi líkast til kosta skattgreiðendur um 20 milljarða króna var farið að leita nýrra leiða. Þeirri leit lauk í gær með því að SpKef var rennt inn í Landsbankann.

Kostnaður ríkisins vegna Sparisjóðsins í Keflavík verður þó samt sem áður umtalsverður. Ljóst er ríkið þarf að leggja Landsbankanum til fé svo hann geti tekið við innlánum SpKef, sem eru á bilinu 55-60 milljarðar króna, og öðrum rekstri hans. Sú upphæð verður að lágmarki 11,2 milljarðar króna, sem var sú fjárhæð sem eigið fé SpKef var neikvætt um í lok árs 2010.

Viðskiptablaðið hefur fylgst vel með málefnum sparisjóðsins frá bankahruni. Hér á eftir fylgir tímalína atburða í sorgarsögu hans:

2008

Október : Íslenskt bankakerfi fer á hliðina og Sparisjóðurinn í Keflavík ratar samstundis í vandræði. Endurskipulagningarferli hans hefst nánast samstundis.

Lok árs : Samkvæmt ársreikningi Sparisjóðs Keflavíkur jók hann innlánasöfnun sína um 40,4% á árinu upp í 54,7 milljarða króna. Síðar hefur komið í ljós að eignir bankans voru mun minna virði en sem nam innlánaskuldbindingunni. Þetta var síðasti ársreikningur sem Sparisjóðurinn hefur birt opinberlega.

2009

1.júní: Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri í Keflavík, lætur að störfum eftir 44 ára starf fyrir sjóðinn. Angantýr Jónasson tekur við starfinu.

Desember: Endurskipulagningu stóru bankanna er að mestu lokið og yfirvöld fara að einbeita sér að sparisjóðakerfinu. Breska ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman kynnir skýrslu sína um mögulegar leiðir til endurskipulagningar sparisjóðakerfisins fyrir íslenskum ráðamönnum. Í þeirri vinnu voru starfsmenn Wyman í sambandi við ýmis fjármálafyrirtæki til að athuga hvort vilji sé hjá þeim til að taka yfir starfsemi smærri sparisjóða á landsbyggðinni, ef ríkið myndi ekki velja að setja viðbótar eiginfjárframlag inn í sjóðina. Steingrímur J. Sigfússon segir í samtali við Viðskiptablaðið að fundað sé nánast daglega um málefni sparisjóðanna á þessum tíma.

2010

Mars: Erlendum kröfuhöfum Sparisjóðsins í Keflavík er gert tilboð um hvernig endurskipuleggja ætti sjóðinn. Í tilboðinu fólst að stofnfé sjóðsins yrði fært niður að nánast öllu leyti, ríkið myndi leggja honum til eigið fé og eignast hann að fullu. Á þessum tíma var talið að innspýting ríkisins þyrfti ekki að verða meiri en um 4,5 milljarðar króna. Erlendir kröfuhafar áttu samkvæmt fréttum að fá um 40% af kröfum sínum til baka við þessa leið. Vert er að taka fram að ekki hafði farið fram sjálfstætt mat óháðs aðila á eignum Sparisjóðsins á þessum tíma heldur var að mestu stuðst við mat stjórnenda sjóðsins. Það mat átti eftir að reynast eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

21. apríl: Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands er birt. Í henni segir að ef  kröfuhafar og stofnfjáreigendur Sparisjóðsins taka ekki tilboði sem íslenska ríkið hefur lagt fyrir þá mun verða gripið til aðgerða sem „vernda innstæðueigendur að fullu.“ Heimildir Viðskiptablaðsins herma að starfsmenn AGS hafi ítrekað varað við því óformlega að frekari peningum yrði dælt inn í sparisjóðakerfið, enda sé bankakerfið á Íslandi þegar of stórt.

22. apríl: Sparisjóðurinn í Keflavík skilar inn starfsleyfi sínu til Fjármálaeftirlitsins (FME), stjórn sjóðsins víkur og bráðabirgðastjórn var skipuð yfir hann. Þessir atburðir gerðust í kjölfar þess að hluti kröfuhafa Sparisjóðsins í Keflavík samþykkti ekki þá skilmála sem fylgdu því að ríkið legði sjóðnum til nýtt eigið fé, en í því fólst að kröfuhafar hefðu tapað kröfum sínum að mestu leyti.

23. apríl: Nýr sparisjóður, SpKef sparisjóður, settur á stofn til að taka við rekstri Sparisjóðsins í Keflavík. Innlán og eignir voru fluttar yfir til SpKef. Stofnfjáreigendur í Keflavík tapa allri eign sinni. Á meðal þeirra voru samvinnufélög, sveitarfélög og lífeyrissjóðir. Ríkið leggur nýja sjóðnum til 900 milljónir króna í nýtt eigið fé og lofar að endurfjármagna hann að fullu.

29. apríl: Viðskiptablaðið greinir frá því að Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri í Keflavík, hafi fengið 54 milljónir króna í laun frá ársbyrjun 2009, þrátt fyrir að hafa látið af störfum í byrjun júní það ár. Hann starfaði þó óformlega við hlið nýs sparisjóðsstjóra út árið. Við starfslok tók Geirmundur einnig út séreignasparnað sem hann hafði safnað að sér hjá sjóðnum í þau 44 ár sem hann hafði starfað þar. Geirmundur vildi ekki segja hversu há upphæð hans var, en síðar kom í ljós að hún nam um 70 milljónum króna.

16. júni: Fyrsti dómur í gengislánamálum fellur á þann veg að lánin séu ólögleg. Dómurinn hefur gífurleg áhrif á eignarsafn SpKef líkt og annarra fjármálafyrirtækja. Kröfuhafar sjóðsins eru í kjölfarið kallaðir aftur að borðinu til að freista þess að ná samningum við þá vegna uppgjörs hins gjaldþrota Sparisjóðs í Keflavík. Þeir eru aðallega þýskir og austurrískir bankar.

28. september: Einar Hannesson ráðinn sparisjóðsstjóri SpKef.

6. október: Þriðja skýrsla AGS um efnahagsáætlun Íslands birt. Þar kemur fram að kröfuhafar Sparisjóðsins fái tíma til að meta tap hans og endurfjármagna hann. Á sama tíma er í versta falli gert ráð fyrir því að ríkið þurfi að endurfjármagna hann. Í skýrslunni segir að slík endurfjármögnun á bæði Byr og SpKef gæti kostað allt að 52,5 milljarða króna, sem er mun hærri upphæð en þeir 20 milljarðar króna sem áður hafði verið talað um. Í skýrslunni var sagt að endurfjármögnun væri talinn ódýrasti kosturinn í stöðunni fyrir ríkið ef kröfuhafar sjóðsins neituðu að taka hann yfir. Ef farið yrði í leiðir á borð við að færa innlán þeirra yfir í aðrar fjármálastofnanir líkt og gert var við Spron árið 2009 er talið að kostnaðurinn yrði enn meiri. Gert var ráð fyrir að sjóðirnir yrðu að fullu endurfjármagnaðir fyrir desemberlok með þeim fyrirvara að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) myndi samþykkja það. Fyrir þann tíma átti einnig að klára að endurmeta eignir sjóðsins.

5. nóvember: Kröfuhafar Sparisjóðsins í Keflavík sagðir hafa náð samkomulagi við slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík og Spkef sparisjóðs um uppgjör vegna yfirtöku á innstæðum og rekstri Sparisjóðsins í Keflavík. Samkvæmt samkomulaginu greiddi Sparisjóðurinn 300 milljónir króna til kröfuhafanna vegna yfirtöku á innstæðum, eignum og rekstri. Um fullnaðaruppgjör átti að vera um að ræða sem byggði á mati á eignum sjóðsins, sem sýndi vægast sagt mikla niðurfærslu. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Sparisjóðsins í Keflavík námu eignir hans 98 milljörðum króna í árslok 2008. Innstæður á þeim tíma, sem eru að fullu tryggðar af íslenska ríkinu, voru um 55 milljarða króna. Ef eignarmatið frá árslokum 2008 hefði staðist hefðu um 43 milljarðar átt að standa eftir þegar búið var að draga eignir frá innstæðum. Þessar eignir „seldu“ kröfuhafar sjóðsins frá sér á 300 milljónir króna samkvæmt samkomulaginu.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að kröfuhafar sjóðsins  hafi látið framkvæma verðmat á eignum hans sem hafi sýnt fram á að eignirnar voru metnar langt yfir raunvirði og að nauðsynlegt  væri að afskrifa stóran hluta þeirra. Í kjölfarið áttu þeir að fallast á fullnaðaruppgjörið. Samkvæmt verðmatinu voru útlán sparisjóðsins sérstaklega slæm. Sparisjóðurinn hafði auk þess vaxið mikið árin áður en hann fór þrot og keypt upp marga minni sparisjóði víðsvegar um landið. Hann hafði einnig aukið innlánasöfnun sína gríðarlega. Klára átti nýjan efnahagsreikning og endurfjármögnun sjóðsins frá ríkinu fyrir lok nóvembermánaðar.

2011

13. janúar: Viðskiptablaðið greinir frá því að ríkið þurfi að setja allt að 14 milljarða króna í nýja SpKef í  nýtt eigið fé til að hann geti mætt skuldbindingum sínum vegna innlána og uppfyllt lágmarkseiginfjárhlutfall starfandi fjármálafyrirtækja. Þar er einnig sagt frá því að erlendir kröfuhafar Sparisjóðsins í Keflavík hafi nú sett sig upp á móti 300 milljóna fullnaðaruppgjörinu frá því í nóvember og neiti að samþykkja það. Niðurstaða þess verði líklega sú að gamli sjóðurinn verður gefinn upp til gjaldþrotaskipta. Kröfuhafar, sem hlaupa á hundruðum og eiga kröfur upp á tugi milljarða, munu fá lítið sem ekkert upp í kröfur sínar.

Þennan sama dag býður Spkef sparisjóður lántakendum sem fjármögnuðu stofnfjárkaup sparisjóðum hjá bankanum að breyta skilmálum lánanna. Höfuðstóll lána mun taka mið af stöðunni eins og hún var upphafi og skuldurum boðið að greiða skuldina með útgáfu skuldabréfs til 25 ára 3,75% óverð tryggðum vöxtum. Erlendum lánum verður breytt íslensk krónulán. Þá verður 10% staðgreiðsluafsláttur boðinn þeim sem kjósa að greiða upp lán eftir skilmálabreytingar.

13. janúar: RÚV greinir frá því að Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhousCoopers rannsaki  fyrir tilstuðlan FME hvort farið hafi verið að lögum og reglum í starfsemi sparisjóðsins.Slitastjórn hans mun síðan, á grundvelli þeirrar rannsóknar, íhuga  hvort ástæða sé til þess að krefjast riftunar á  vafasömum fjármálagjörningum stjórnar  sparisjóðsins. Samkvæmt heimildum er þar á meðal  starfslokasamningur fyrrverandi sparisjóðsstjóra upp  á tugi milljóna króna, auk útgreiðslu áséreignarlífeyrissparnaði hans upp á 70 milljónir í janúar 2009, fjórum mánuðum fyrir fall sparisjóðsins. Haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni í fréttum Rúv að  „Sparisjóðakeðjan hefði ekki verið svipur hjá sjón ef þessi stofnun hefði horfið. Bæði stærðarinnar vegna og líka landfræðilegrar dreifingar vegna“.

24. janúar: RÚV greinir frá því að stjórn Sparisjóðs Keflavíkur virðist hafa verið í algjörum ólestri rétt fyrir hrun, samkvæmt svartri skýrslu FME. Hvorki voru til heildstæðar reglur um útlán né áhættustýringu og stjórn sparisjóðsins sinnti ekki eftirlitshlutverki sínu. Þá skrifaði sparisjóðsstjórinn upp á lán án vitneskju  lánanefndar sjóðsins.

27. janúar: RÚV greinir frá því að Sparisjóðurinn í Keflavík lánaði fram til ársins 2008 á annan tug milljarða króna til tæplega 80 einkahlutafélaga og einstaklinga án haldbærra veða  eða trygginga. Um sjö og hálfan milljarð króna vantar upp á svo tryggingar standi undir lánunum.  Fyrrverandi bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og félög tengd honum fengu tæplega 600 milljónir króna að láni hjá sjóðnum án tryggra veða.

28. janúar: Fjölmiðlar greina frá því að Sparisjóður Keflavíkur fékk ítrekað frest til að bæta eiginfjárstöðu sína árið áður en FME tók hann yfir. Lítið sem ekkert mun fást upp í 36 milljarða kröfur. Fjármálaeftirlitið gerði upphaflega alvarlegar athugasemdir við stöðuna hjá Sparisjóði Keflavíkur í september 2008, einu og hálfu ári áður en sjóðurinn var tekinn yfir. Vorið 2009 var ljóst að  eigið féð var langt undir mörkum og að sjóðurinn gat  ekki staðið við skuldbindingar sínar.

31. janúar: RÚV greinir frá því að upphaflegur starfslokasamningur Geirmundar Kristinssonar sem hann gerði, gerði ráð fyrir að 60 milljóna króna skuld sonar hans við sjóðinn yrði færð yfir í einkahlutafélag sonarins. Geirmundur skrifaði samninginn sjálfur árið 2009.

1. febrúar: RÚV greinir frá því að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi afskrifað tæplega 50 milljóna króna skuld hjá syni Geirmundar rétt áður en ríkið tók sjóðinn yfir. Þá voru tæplega 700 milljónir króna afskrifaðar á sama tíma hjá einkahlutafélagi sem verið hafði í eigu sonarins

26. febrúar: RÚV greinir frá því að Slitastjórn Sparisjóðsins í Keflavík neitar að skrifa  undir samning við SpKef sparisjóð vegna uppgjörs á  innistæðum og yfirtöku sparisjóðsins. Slitastjórnin taldi að vegna fjárskorts takist hvorki að ljúka slitameðferð sparisjóðsins né sinna riftunar- og skaðabótamálum.

4. mars: vb.is greinir frá því að samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður SpKef, sem reistur var á rústum Sparisjóðs Keflavíkur, ekki endurreistur eins og ríkisstjórnin hefur stefnt að. Þess í stað verður innlánum í sparisjóðnum rennt inn í Landsbanka Íslands. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins munu einhver útibú SpKef halda starfsemi áfram en þá undir merkjum Landsbankans. Ekki fengust upplýsingar um hve mörg útibú er að ræða.

5. mars: Fjármálaráðuneytið sendir tilkynningu um að í hádeginu þennan dag hafi verið undirritaður samningur fjármálaráðherra og Landsbanka Íslands um yfirtöku og samruna Landsbankans við SpKef sparisjóð samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Í tilkynningunni sagði einni að SpKef hafi vantað 19,4 milljarða króna eigin fjárframlag til að mæta innlánum sínum og uppfylla kröfur FME um 16% eiginfjárhlutfall. Ríkið hefði þurft að leggja því til það fé. Þá var eigið fé sjóðsins neikvætt um 11,2 milljarða króna um síðustu áramót og hann í miklum lausafjárvandræðum þar að auki.Í tilkynningu frá Landsbankanum skömmu síðar kom fram að ríkissjóður muni leggja Landsbankanum til fjárframlag til að mæta neikvæðri eignarstöðu SpKef. Framlagið mun ráðast að verðmæti eigna sparisjóðsins, en ráðist verður í enn eitt verðmatið á þeim. Því á að ljúka í apríl.