Talið er að flugfélög víðs vegar um heim hafi tapað allt að 6 milljörðum Bandaríkjadala á fyrri helmingi ársins, eða um einum milljarða dala í hverjum mánuði, samkvæmt upplýsingum frá alþjóðasamtökum flugrekenda (IATA).

Tapið skiptist að mestu þannig að á fyrsta ársfjórðungi þessa árs töpuðu flugfélög á heimsvísu um 4 milljörðum dala, en á öðrum ársfjórðungi nam tapið um 2 milljörðum dala.

Um miðjan júní gerðu IATA samtökin ráð fyrir því að flugfélög í heiminum myndu tapa allt að 9 milljörðum dala á árinu. Það var þá endurskoðuð áætlun en í mars s.l. var gert ráð fyrir 4,7 milljarða dala tapi.

Því má ljós vera að sú svartsýna spá sem IATA gaf út í júní var í raun heldur bjartsýn, ef áfram fer sem horfir. þrátt fyrir að eldsneytisverð hafi haldist nokkuð stöðugt hefur mikill samdráttur orðið í eftirspurn, bæði í farþega- og fraktflugi sem leiðir til þessa mikla taps flugfélaga út um allan heim.

Erlendir fjölmiðlar fjölluðu nokkuð um málið í gærkvöldi. Bæði Reuters og BBC greina frá því að í skýrslu IATA komi fram að flugfélög fái jafnan um 50% tekna sinna öðrum ársfjórðungi (apríl, maí og júní) vegna mikilla ferðalaga almennings. Hins vegar hafi flugfélög á heimsvísu tapað fjármagni á sama tíma sem er mjög óvenjulegt.

Á segir breska blaðið Telegraph að lítið útlit sé fyrir að þriðji ársfjórðungur verði mikið betri, þrátt fyrir að allt útlit sé fyrir að 3% aukning hafi orðið í farþegaflugi á heimsvísu í júlímánuði.

Samkvæmt skýrslu IATA hefur aðeins orðið aukning á farþegaflugi í Asíu á fyrri helmingi ársins, eða um 8,2%. Þrátt fyrir það er töluvert tap á rekstri þeirra flugfélaga í Asíu sem eiga aðild að IATA, eða um 1,3 milljarður dala á öðrum ársfjórðungi – samanborið við tæplega 440 milljóna dala tap á sama tíma í fyrra. Í Evrópu töpuðu þau flugfélög sem eiga aðild að IATA um 1,1 milljarði dala á öðrum ársfjórðungi, samanborið við tæplega 960 milljóna dala tap á sama tíma í fyrra.

Í N-Ameríku minnkaði tap flugfélaga á milli ára en þau félög sem eiga aðild að IATA rúmlega 134 milljónum dala á ársfjórðungi, samanborið við 420 milljarða dala tap á sama tíma í fyrra.