Nýstofnaður flokkur nýkjörins forseta Úkraínu, uppistandarans og leikarans Volodymyr Zelensky, vann stórsigur í kosningunum í landinu sem haldnar voru í gær með tæplega 43% atkvæða.

Samkvæmt útgönguspám gæti það dugað til að flokkurinn fengi hreinan meirihluta á þinginu, en þó ekki sé búið að birta niðurstöðurnar að fullu er ljóst að flokkurinn hefur hlotið 125 af einmenningskjördæmum landsins.

Flókið kosningakerfi og tóm sæti í kjölfar umróts

Nú stefnir í að fimm flokkar af um 20 flokkum sem buðu sig fram nái yfir 5% lágmarkið til að fá úthlutað sæti eftir listakosningunni sem nær formlega nær til helmings þingsætanna eða 225. Hinn helmingur þingsætanna, fyrir utan þau þingsæti sem nú verða tóm sem ná yfir svæði sem Rússar hernámu, er úthlutað eftir einmenningskjördæmum.

Eins og áður segir var ekki kosið nú til 26 þingsæta sem ná yfir Krímskaga sem Rússar hafa innlimað og Donbass svæðið þar sem lýst hefur verið yfir sjálfstjórn tveggja ríkja aðskilnaðarsinna sem njóta stuðnings Rússlands.

Mikil pólítískt uppnám hefur verið í Úkraínu síðustu ár, en í kjölfar mikilla mótmæla í höfuðborginni Kænugarði í lok árs 2013, sem brutust út eftir að hætt var við verslunar og samstarfssamning við ESB, féll ríkisstjórn Viktor Yanukovych. Í framhaldi af því tóku Rússar og rússneskir aðskilnaðarsinnar yfir hluta af landinu og halda því enn.

Lék umbótaforseta í sjónvarpsstöð auðjöfurs sem átti harma að hefna

Zelensky forseti, sem kom fram á sjónarsviðið þegar hann lék kennara sem varð óvænt forseti í landinu í vinsælum sjónvarpsþáttum, leysti upp þingið og boðaði til kosninga á öðrum degi sínum í embætti í lok maí. Sagði hann ástæðuna vera til að koma í gegn umbótum sínum á þingi, en mikil óánægja hefur verið með stjórnmálin í landinu eftir að pattstaða myndaðist í deilunum við Rússa.

Hafði forsetinn þá þegar stofnað flokk sinn sem ber nafn sjónvarpsþáttanna sem hann birtist fyrst í, Þjónn fólksins, en flokkurinn kennir stefnu sína við frjálshyggu þó deildar meiningar séu um hve nákvæm sú lýsing sé.

Meðal stefnumála flokksins er að leyfa notkun kannabis í lækningaskyni og að dreifa arði af náttúruauðlindum meðal almennings, en hann er jafnframt á móti almennri byssueign í landinu. Önnur stefnumál Þjóns fólksins er að auðvelda fjárfestum af úkraínsku bergi brotnu að fjárfesta í landinu og koma á beinu lýðræði og draga úr spillingu.

Helsti bakhjarl Zelensky er talinn vera viðskiptajöfurinn Ihor Kolomoisky sem á sjónvarpsstöðina sem þættirnir birtust á, en hann er talinn annar eða þriðji ríkasti maður landsins. Hafði hann harma að hefna gagnvart fyrrum forseta landsins Petro Porohshensko en ríkisstjórn hans tók yfir bankann Privatbank sem Kolomoisky var annar aðaleigandinn í.

Klofningur meðal stuðningsmanna Rússa

Næst stærsti flokkurinn var Andstöðugrundvöllurinn - Fyrir lífinu, annar af tveimur klofningsflokkum úr arftaka gamla Landshlutaflokksins, flokki Viktor Yanukovych, fyrrum forseta sem hallur var undir Rússa og naut stuðnings á rússneskumælandi svæðum landsins.

Fékk flokkurinn 13% atkvæða, og 7 þingsæti af einmenningskjördæmunum en leiðtogi flokksins er viðskiptajöfurinn Viktor Medvedchuk sem er náinn bandamaður Vladimir Putin Rússlandsforseta. Annar klofningur úr sama flokki, Andstöðublokkin hlaut einungis rúmlega 3% atkvæða og því engin þingsæti í listakjörinu en hann hefur hins vegar náð 6 þingsætum af einmenningskjördæmunum.

Gömlu flokkarnir með undir 10% hvor

Þriðji stærsti flokkurinn var Evrópsk samstaða, flokkur Petro Poroshensko fyrrum forseta, en hann fékk tæplega 9% atkvæða, en einungis 2 þingsæti af einmenningskjördæmunum. Fjórði stærsti flokkurinn, með 8% er Föðurland, flokkur Yuliu Tymoshenko, sem hafði verið í fangelsi í forsetatíð Yankovych en var leyst úr haldi í kjölfar falls ríkisstjórnar hans. Hlaut flokkur hennar 3 þingsæti af einmenningskjördæmunum.

Loks hlaut flokkurinn Röddin, flokkur rokkstjörnunnar Svyatoslav Vakarchuk, sem studdi bæði mótmælin og þar áður Appelsínu gulu byltinguna árið 2004 í landinu, 6,3% atkvæða. Hlaut hann auk þess 2 þingsæti í gegnum einmenningskjördæmakerfið. Er sá flokkur talinn líklegur samstarfsflokkur Þjóns fólksins ef hann er ekki með hreinan meirihluta á þinginu.

Tveir flokkar til viðbótar náðu einmenningsþingsætum þó þeir hafi ekki nægilegt fylgi til að fá þingsæti úthlutað í listakosningunum, en hver kjósandi fær tvo kjörseðla til að kjósa eftir, landslista og sitt eigið kjördæmi. Er það annars vegar þjóðernissinnaflokkurinn Svoboda sem hlotið hafði ríflega 10% atkvæða í kosningunum 2012 og 6 sæti í kosningunum 2014.

Einnig hlaut flokkur sem kennir sig við að reiða á sjálfan sig eitt einmenningsþingsæti, en sá flokkur á rætur í samvinnuhreyfingu sem var sterk meðal bænda í vestur Úkraínu áður en kommúnistar náðu völdum í landinu.