Ekki stendur til að greiða neinar upphæðir tilbaka heldur eingöngu að lækka skuldir, segir Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður í viðtali við Bylgjuna um áætlaða skuldaniðurfellingu.

Seðlabanki Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn vegna niðurfærslu lána. Seðlabankinn gagngrýnir niðurfærsluna og segir hana vera dýra og óskilvirka. Samtök atvinnulífsins lýsa yfir áhyggjum sínum og segja slíkar aðgerðir hafa víðtæk áhrif á efnahagslífið. Einkaneysla muni aukast ásamt innflutningi. Þetta geti því stuðlað að veikara gengi og vaxandi verðbólgu. Frosti segir að með því að lækka skuldirnar en greiða ekki út neinar fjárhæðir þurfi ekki að óttast neitt verðbólguskot.