EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að það samrýmist ekki Evróputilskipun að miða við 0% verðbólgu í greiðsluáætlun verðtryggðra lána. Niðurstaðan er hluti af ráðgefandi áliti sem dómstóllinn veitir íslenskum dómstólum.

Óskað var eftir álitinu vegna máls, sem Sævar Jón Gunnarsson höfðaði gegn Landsbankanum. Í álitinu kemur enn fremur fram að það sé íslenskra dómstóla að meta hvaða áhrif þessi ranga upplýsingagjöf hafi haft. Þá eiga dómstólar líka að ákveða hvaða úrræðum sé hægt að beita, án þess að neytendaverndinni, sem fjallað er um í tilskipuninni, sé stefnt í hættu.

Björn Þorri Viktorsson, lögmaður Sævars Jóns, segir að svar dómstólsins við spurningunni um 0% verðbólguna sé fullnaðarsigur fyrir hans skjólstæðing í því tiltekna ágreiningsefni.

„Við byggðum á því að þessi upplýsingagjöf væri ekki nægjanleg og ekki í samræmi við þær skyldur sem hvíla á lánveitendum og EFTA-dómstóllinn er sammála okkur," segri Björn Þorri. „Reyndar voru ESA og framkvæmdastjórnin líka sammála okkur. Síðan þarf að koma í ljós hvernig íslenskir dómstólar munu bregðast við þessu broti. Það er samt alveg ljóst að þeir þurfa að gæta þess rækilega að stefna ekki þeirri vernd, sem tilskipunin veitir neytendum, í hættu."

Lögmaður Landsbankans

Hulda Árnadóttir, sem flutti málið fyrir hönd Landsbankans fyrir EFTA-dómstólnum, segir mikilvægt að huga að því að í áliti dómstólsins segir að það sé íslenskra dómstóla að meta framhaldið.

„Álitið kom ekki á óvart þannig lagað séð. Þetta svar dómstólsins segir lítið um það hvernig málið mun á endanum fara fyrir dómstólum og því er í raun mjög lítið hægt að segja um þetta á þessu stigi — fæst orð bera minnsta ábyrgð.“

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri úttekt í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .