Leiðtogar 20 helstu iðnríkja heims ætla að ræða um hernaðaríhlutun í Sýrlandi á fundi leiðtoga aðildarríkjanna í Rússlandi í dag. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) bendir á það í umfjöllun um málið að Sýrlendingar eru ekki aðilar að fundi iðnríkjanna og því munu umræðurnar verða óformlegar. Gert er ráð fyrir því að Rússar muni verða sem fyrr á móti hernaði í Sýrlandi eins og Kínverjar.

Ljóst þykir að málefni Sýrland skyggir á aðalumræðuefni fundarins sem á að vera staðan í heimshagkerfinu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur róið að því öllum árum að fá stuðning fyrir innrás í Sýrland heima fyrir en í gærkvöldi tryggði hann sér stuðning öldungadeildar Bandaríkjaþings. Enn á þó eftir að kjósa um málið á þinginu en það verður gert í næstu viku.Þá á fulltrúadeild Bandaríkjaþings eftir að gefa samþykki sitt fyrir hernaðaríhlutun í landinu, að sögn BBC.